„Við erum afslappaðir og yfirvegaðir enda höfum við reynt að búa okkur undir leikinn eins og vel og kostur er á með þann stutta tíma sem gefst,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara íslenska landsliðsins í handknattleik karla í samtali við handbolta.is í gær. Í kvöld mætir íslenska landsliðið því tékkneska í undankeppni Evrópumótsins í Brno í Tékklandi. Flautað verður til leiks klukkan 19.15.
„Hugarfarið er gott hjá strákunum og orkan er fín innan hópsins. Við vitum að til þess að vinna verðum við að ná fram góðri frammistöðu. Á þeim stutta tíma sem við höfum fyrir leikinn vinnum við með það sem hefur verið til staðar hjá liðinu. Skipulagið hefur verið gott. Sóknarleikurinn mjög góður. Við erum að reyna að aðlaga varnarleikinn okkar að leikaðferðum Tékkanna og því sem þeir eru að spila.
Vonandi verða bara allir í góðu standi þegar á hólminn verður komið þannig að við getum farið heim með sigur. Ég er sannfærður um það að ef strákarnir leika vel þá náum við í sigur,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson. Leikurinn í kvöld verður sá fyrsti eftir að Ágúst Þór og Gunnar tóku tímabundið við þjálfun landsliðsins á dögunum.
Uppgjör um efsta sætið
Leikurinn í Brno verður sá þriðji hjá báðum landsliðum í undankeppninni. Tékkar eins og Íslendingar eru með fullt hús stiga í þriðja riðli. Eistlendingar og Ísraelsmenn eru án stiga.
Undanriðlar fyrir EM eru átta og verða tvö efstu lið hvers riðils örugg um sæti í lokakeppni EM sem fram fer í Þýskalandi í janúar á næsta ári.
Leikurinn í Brno verður í beinni útsendingu RÚV og eins verður handbolti.is með textalýsingu en tíðindamaður er á leikstað.