„Við vorum fljótir að ná okkur niður eftir sigurleikinn á Svíum. Þegar lagst var út af var hugurinn strax kominn á næsta leik,“ sagði Arnar Freyr Arnarsson landsliðsmaður í handknattleik í gær. Arnar Freyr verður í eldlínunni með félögum sínum í landsliðinu í dag kl. 14.30 þegar þeir mæta Sviss í þriðju umferð milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik.
Eftir sigurinn á Svíum glæddust vonir Arnars og félaga á sæti í undanúrslitum Evrópumótsins til muna.
„Ég er sáttur við mína frammistöðu gegn Svíum og liðsins í heild. Það getur orðið okkur dýrmætt að hafa unnið með átta mörkum þegar dæmið verður gert upp síðar. Við náðum að koma að miklu leyti í veg fyrir að Svíar skoruðu mörg auðveld mörk. Varnarleikurinn var góður og þegar eitthvað bilaði þá tók Viktor Gísli við. Annars var ég stoltari af sóknarleiknum okkar sem var mjög góður og raskaðist ekkert þrátt fyrir að bæði Elliði og Viggó meiddust.
Nú er bara fókus á leikinn við Sviss,“ sagði Arnar Freyr Arnarsson í gær.
Íslenska landsliðið þarf að vinna leikinn til þess að halda efsta sæti milliriðilsins fyrir lokaumferðina á morgun, miðvikudag.


