- Auglýsing -
- Hún er merkileg þessi tækni sagði gamli maðurinn þegar sveitasíminn var í hans heimasveit. Enn magnaðri þótti tæknin þegar NMT-síminn kom á markaðinn áratugum síðar og rödd leikkonu tilkynnti að síminn væri utan þjónustusvæðis eða að rásirnar væru uppteknar. Kostaði þetta eitt skref eða tvö þegar lengt símtala var innheimt eftir skrefafjölda?
- En aftur að sveitasímanum. Ein stutt og tvær langar og ein stutt, ein löng og ein stutt voru lengi meðal auðkenna þegar lítilli sveif var snúið á hlið símans til þess að spara sér sporin á milli bæja til að koma skilaboðum. Fá lánaða hamar eða sög um tíma eða jafnvel sjálfan Tímann. Handskrifað blað var límt á vegg nærri símanum með helstu bæjarheitum og hversu margar stuttar og langar voru á hverjum bæ. Aðeins var hægt að hringja milli landshluta á vissum tímum yfir daginn og þá með aðstoð símstöðvar.
- Löngu síðar kom grái síminn með snúingsskífunni góðu inn á hvert heimili með sinni reiðilegu hringingu. Þá voru tölustafa símanúmer á milli heimila sem var að finna í hnausþykkri bók sem kallaðist símaskrá og innihélt einnig helstu upplýsingar til fólks til hvaða bragðs skyldi taka í jarðskjálftum. Ekki þurfti lengur að sæta lagi á ákveðnum tímum dags og mæla höstulega í gamla sveitasímann á afmörkuðum tíma dagsins, símstöð! símstöð! ef hringja þurfti í Hvannbergsbræður og panta skó til fermingar. Ofan á allt þá lá ekki hálf sveitin á línunni lengur með tilheyrandi skruðningum og andardrætti þegar hringt var á milli bæja, suður eða austur eftir.
- Ef í harðbakkann sló á veturnar í vondum veðrum mátti sitja að tafli milli bæja í sveitasímanum þótt það væri e.t.v. ekki vinsælt meðal annarra notenda en þeirra sem sátu að tafli.
- Þótt ég sé ekki orðinn eldgamall þá man ég glöggt eftir sveitasímanum hjá ömmu og afa norður á Ströndum. Hugsanirnar skutust upp í kollinn á mér í morgun þegar ég sat í nærri 39.000 feta hæð um borð í flugvél á leiðinni til London og sló inn þennan pistil inn á tölvuna, pistli sem kemur handbolta ekkert við, tengdist internetinu í Airbus-inum og færði textann inn í ritstjórnarkerfi handbolta.is. Sekúndu síðar birtist pistillinn á forsíðu handbolta.is. Hugsa sér! Langt frá tækni sveitasímans.
- Hún er svo sannarlega merkileg þessi tækni. Ég er viss um að gamli maðurinn hann afi minn ætti bágt með að trú tækninni sem er í dag. Honum þótti heimasíminn, loksins þegar hann kom á Strandirnar hreinn lúxus og NMT-undur eitt. Eina sem hann skildi ekki var hver þörfin væri fyrir að tilkynna fólki að síminn væri á tali eða utan þjónustusvæðis. NMT-símann þekkja fáir í dag. Hann grunaði Póst og Síma um að stela skrefum með þessum óþarfa.
- Ég er semsagt á leiðinni til Grikklands. Slóst í för með íslenska karlalandsliðinu í handknattleik sem þar mætir landsliði heimamanna síðdegis á miðvikudaginn.
- Þeir eru enga stund farnir fjórir tímarnir, sagði ágætur maður þegar honum þótt ferðalög nútímans milli landshluta ganga hratt fyrir sig. Sama má segja um tæknina. Henni er m.a.að þakka að þarf enginn lengur að missa af „tíuveðrinu“ á morgnanna þótt verið sé í flugi. Það má bara hlusta þegar hentar í símanum, þó ekki í sveitasímanum.
Ívar Benediktsson, [email protected]