- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hún hentar mér aðeins betur

Viktor Gísli Hallgrímsson markvörður Nantes í Frakklandi og íslenska landsliðsins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Hún hentar mér aðeins betur,“ svaraði Viktor Gísli Hallgrímsson landsliðsmarkvörður í handknattleik spurður um varnarleikinn hjá íslenska landsliðinu sem hefur tekið nokkrum breytingum með nýjum landsliðsþjálfara. Viktor Gísli lék lengst af mjög vel í markinu í gær gegn Serbum og náði sér einnig vel á strik í öðrum vináttuleiknum við Austurríki í aðdraganda EM auk leikjanna við Færeyinga í byrjun nóvember.

„Vörnin er passívari en áður. Ekki er eins mikið um reglur og áður, reglur sem getur verið erfitt að fara eftir. Menn láta tilfinninguna ráða meira en áður og þar af leiðandi koma fleiri skot sem hentar mér vel,“ sagði Viktor Gísli sem fór frábærlega af stað í leiknum í gær og varði sex af átta fyrstu markskotum Serba.

Viktor Gísli fylgist grannt með. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

„Þegar ég horfði á leikinn þá sá ég að nokkur af fyrstu skotunum voru frekar létt. Þau komu eiginlega beint á mig. Þetta hjálpaði mjög upp á sjálftraustið að gera. Það var bara mjög gott að byrja mótið vel,“ sagði Viktor ennfremur en hann kom síðan sterkur inn í lokin eftir að hafa misst dampinn framan af síðari hálfleik.

Býr sig undir svipaðan andstæðing

Viktor Gísli segist búa sig undir svipaðan leika á morgun gegn Svartfjallalandi. Svartfellska liðið hefur á að skipa stórum og sterkum leikmönnum og mörgum góðum skyttum. „Það verður að duga eða drepast fyrir þá og okkur á morgun. Við verðum að spila okkar leik, ná betri rythma í allan leikinn. Takist það eigum við góðan séns,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson landsliðsmarkvörður í handknattleik í samtali við handbolta.is í München í dag.

Lengri hljóðritaða útgáfu af viðtalinu er að finna hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -