- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hvar eru „sprengjukastararnir“?

Þrír fræknir. Einar Magnússon, Hamburger SV, er á milli Dankersen-leikmannanna Ólafs H. Jónssonar og Axels Axelssonar. Einar og Axel voru þekktir fyrir sín þrumuskot.
- Auglýsing -

Þegar íslenska landsliðið tók þátt í heimsmeistarakeppninni í Vestur-Þýskalandi 1961 og hafnaði í sjötta sæti, var mikið skrifað um liðið og leikmenn liðsins. Sérstaklega eftir jafnteflisleik gegn Tékkóslóvakíu, 15:15. Geysileg spenna var á lokakafla leiksins, er íslensku leikmennirnir unnu upp þriggja marka forskot Tékka, 15:12, á ævintýrlegan hátt. Þegar Gunnlaugur Hjálmarsson skoraði jöfnunarmarkið örfáum sekúndum fyrir leikslok með hörkuskoti, var eins og sprengju væri kastað á áhorfendabekkina – áhorfendur, sem nær allir voru á bandi „litlu“ þjóðarinnar, risu úr sætum, stigu stríðsdans og fögnuðu ákaft.

Íslenskir skotmenn vöktu strax athygli á árum áður, enda lítið hægt að gera annað en skora með langskotum á litlum velli að Hálogalandi, þar sem varnir gengu langt út á þröngan völlinn.

Sovétmenn mynduðu smuguskot Ragnars

Þegar Ísland tók þátt í fyrsta skipti á HM, 1958 í Austur-Þýskalandi, sendu Sovétmenn flokk manna til að fylgjast með keppninni, en Sovétmenn höfðu aldrei tekið þátt í alþjóðlegri keppni. Þeir höfðu samband við Ragnar Jónsson, stórskyttu úr FH, og óskuðu eftir að fá að kvikmynda þrjár gerðir af smuguskotum hans, sem Ragnar var frægur fyrir. Ragnar varð við ósk Sovétmanna og voru skot hans mynduð bak og fyrir á æfingu.

Skotfastir Íslendingar

 Danska blaðið Politiken skrifaði um íslenska handknattleiksmenn á HM 1961 og var sagt frá hinum skotföstu Íslandingum og var þá vitnað í leikmenn tékkneska liðsins Gottwaldov, sem lék á Íslandi um haustið 1960, en með liðinu léku sex tékkneskir landsliðsmenn. Tékkarnir sögðu að þeir gætu notað nokkra slíka sprengjukastara (bombekastere) í landslið þeirra. „Svo gætum við hinir séð um spilið.“

Þegar dönsku liðin komu í keppnisferðir á árum áður til Íslands, sögðu Danir að jafnvel smástrákar hefðu skotið þá niður!

Já, stórskyttur hafa alltaf sett svip sinn á landsliðið. Ragnar, Gunnlaugur, Ingólfur Óskarsson, Geir Hallsteinsson, Jón Hjaltalín Magnússon, Einar Magnússon, Axel Axelsson, Kristján Arason, Alfreð Gíslason, Júlíus Jónasson, Héðinn Gilsson, Julian Róbert Duranona, Patrekur Jóhannesson og Ólafur Stefánsson, svo einhverjir séu nefndir.

Fallbyssurnar þögnuðu aldrei

Ein eftirminnilegasta stórskotahríð landsliðsins var 1973, þegar Geir og Axel skoruðu 23 mörk í sigri á Frökkum í Laugardalshöllinni, 28:15. Axel 13, Geir 10. Hin mörkin skoruðu línu- og hornamennirnir Björgvin Björgvinsson (4) og Gunnsteinn Skúlason, eitt.

Íslandsmet sett í München!

Það hafa ekki mörg mörk verið skoruð með langskotum á EM í Þýskalandi þessa dagana. 13 mörk (jafn mörg og Axel skoraði gegn Frökkum!) af 83 mörkum hafa verið skoruð með langskotum, eða 15,6% markanna.

Aron Pálmarsson fyrirliði landsliðsins í handknattleik. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Fjögur mörk gegn Serbíu, sjö gegn Svartfjallalandi og aðeins TVÖ mörk gegn Ungverjalandi, sem er Íslandsmet. Aron Pálmarsson skoraði bæði mörkin, á 32,29 mín. og 53,30 mín. gegn Serbíu skoraði Aron tvö af fjórum mörkum, sem voru skoruð úr langskotum, þegar 1,30 mín. var til leiksloka. Hin tvö mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik, Elvar Örn Jónsson og Ómar Ingi Magnússon.

Þeir sem hafa skorað með langskotum eru Aron (6), Ómar Ingi (3), Elvar Örn (2) og Janus Daði Smárason og Gísli Þorgeir Kristjánsson eitt hvor. Þetta er allt og sumt sem boðið hefur verið upp á í þremur leikjum.

Ég segji enn og aftur; Strákar upp með fjörið!

Auf Wiedersehn!

Sigmundur Ó. Steinarsson.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -