- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hvernig lesa þeir í okkar leik?

Snorri Steinn Guðjónsson fyrrverandi þjálfari Vals. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Það verður fróðlegt að sjá hvernig þeir lesa í okkar leik. Eftir þeim leikjum sem ég hef séð með Benidormliðinu í spænska handboltanum þá hefur liðið ekki keyrt mikið upp hraðann. Þess vegna er óljóst hvort þeir vilji hlaupa með okkur eins og Ungverjarnir gerðu eða hvort þeir vilja leika hægar. Það eru allskonar breytur í þessu sem skýrast ekki fyrr en út í leikinn verður komið,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, í samtali við handbolta.is, þegar hann var spurður út í væntanlega viðureign við TM Benidorm í kvöld í annarri umferð B-riðils Evrópudeildarinnar í handknattleik.


Leikurinn hefst klukkan 19.45 í Palau d´Esports lÍlla de Benidorm.

Aðrir leikir í B-riðli:
Kl. 17.45: FTC - Ystads.
Kl. 17.45: Flensburg - PAUC.
Ekki er útilokað að hægt verði að fylgjast með leikjunum tveimur á EHFtv.
Staðan: Flensburg 2 stig, PAUC 2, Valur 2, Benidorm 0, FTC 0, Ystad 0.

Hvar liggja áherslurnar?

„Það er gaman að velta þessu öllu saman fyrir sér, jafnt fyrir leikinn og eins þegar komið verður út leikinn. Hvar liggja áherslu þeirra meðal annars,“ sagði Snorri Steinn sem kom út með sveit sína á laugardagskvöldið.

Jesper Kirkholm Madsen og Henrik Mortensen frá Danmörku dæma leik TM Benidorm og Vals í kvöld.

Sjö á sex í Flensburg

Valur vann afar góðan sigur á FTC (Ferencvárosi Torna Club) á heimavelli fyrir viku, 43:39, í einstaklega hröðum og skemmtilegum leik. TM Benidorm tapaði fyrir Flensburg í Þýskalandi með fimm marka mun í hörkuleik sem var alls ekki eins hraður og viðureignin í Origohöllinni. Benidorm lék meira og minna með sjö menn í sókn í Flens-Arena.

Ná upp okkar leik og gera það vel

„Fyrir okkur snýst verkefnið um að ná upp okkar leik og gera það vel. Við vitum það að ef við gerum mörg mistök þá er voðinn vís. Jafn leikur getur verið fljótur að renna út úr höndunum á okkur. Við verðum einfaldlega að leika mjög vel hvernig sem andstæðingurinn leikur eða bregst við,“ segir Snorri Steinn og bætir við að eitt og annað verði að læra af síðasta leik í keppninni.

Nokkur hópur stuðningsmanna Vals fór til Benidorm til að styðja við bakið á liðinu. Eins er reiknað með að all margir Íslendingar sem staddir eru í nágrenninu verði í stuðningsmannahópi Valsara.

Ýmislegt verður að bæta

„Við þurfum að laga eitt og annað frá síðasta leik og má þar nefna stöðuna maður á móti manni í vörn. Okkur gekk mjög illa að ráða við Máté Lékai maður gegn manni í viðureigninni við FTC. Nokkrir leikmenn Benidorm eru öflugir í þeirri stöðu.

Mikið mun mæða á Magnúsi Óla Magnússyni og öðru leikmönnum Vals á Benidorm í kvöld. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Eins verðum við að vera öflugri í vörninni, styðja betur við markverðina okkar. Takist það eigum við auðveldara með að keyra upp hraðann og stríða spænska liðinu. Einnig verðum við að búa okkur undir að mæta mjög agressívri vörn Benidormliðsins sem leikin er framar en við eigum að venjast. Gegn Flensburg lék Benidormliðið 3/2/1 vörn og jafnvel 3/3 á köflum. Hvað þeir gera okkur verður að koma í ljós. Alltént er ljóst að við erum á leiðinni í verðugt og skemmtilegt verkefni,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Íslands- og bikarmeistara Vals í samtali við handbolta.is.


Sem fyrr segir hefst leikur TM Benidorm og Vals klukkan 19.45 í kvöld. Textalýsing verður á handbolti.is auk þess sem útsending verður á Stöð2sport.

Valsmenn ætla að koma saman í Fjósinu á Hlíðarenda í kvöld og fylgjast með leiknum sem varpað verður upp á stórum sjónvarpsskjám í félagsheimilinu. Flautað verður til leiks á Benidorm klukkan 19.45.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -