Sviss og Ungverjaland skildu jöfn, 29:29, í milliriðli Íslands á Evrópumótinu í handknattleik karla í Malmö Arena í kvöld. Leikurinn var afar kaflaskiptur og til þess að undirstrika það þá tókst hvorugu liðinu að höggva á hnútinn síðustu tæplega þrjár mínúturnar og skora sigurmarkið.
Þar með hefur hvort lið eitt stig og eru fyrir neðan Ísland eftir fyrstu umferðina. Síðar í kvöld eigast við Svíar og Slóvenar í síðasta leik umferðarinnar í milliriðli tvö.
Fóru á kostum
Lið Sviss fór á kostum í fyrri hálfleik og hafði sex marka forskot að honum loknum, 20:14. Framan af síðari hálfleik benti fátt til þess að Ungverjar næðu að hleypa spennu í viðureignina. Sviss var sex mörkum yfir, 25:19, þegar níu mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Ungverjar bitu þá í skjaldarrendur og minnkuðu muninn í eitt mark, 25:24. Sviss komst fjórum mörkum yfir, 28:24, en Ungverjar skoruðu fimm mörk í röð og komust yfir, 29:28, þegar liðlega þrjár mínútur voru eftir. Ben Romdhane jafnaði metin fyrir Sviss skömmu síðar.
Eftir það tókst hvorugu liðinu að skora mark og tryggja sér stigin tvö.
Lenny Rubin skoraði sjö mörk fyrir Sviss og Noam Leopold skoraði einu marki færra. Nikola Portner varði 12 skot í marki Sviss, flest í fyrri hálfleik.
Línumaðurinn Miklós Rosta var markahæstur í ungverska liðinu með fimm mörk. Kristófer Palasics varði 14 skot í ungverska markinu, 35%.

