- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hyggjast slá Íslendinga út af laginu í „rauða helvítinu“

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Tékkar ætla að leggja allt í sölurnar til þess að leggja íslenska landsliðið að velli í viðureign þeirra í Mestska hala Vodova-íþróttahöllinni í Brno í Tékklandi á morgun. Keppnishöllin gengur undir því virðulega heiti „rauða helvítið“ (červené peklo) því til stendur að allir áhorfendur verði rauðklæddir, flestir með rauðar veifur og allir með rauðar klöppur. Þess utan verða leikmenn tékkneska landsliðsins í rauðum búningum.

„Stemningin á síðustu heimaleikjum landsliðsins í Brno hefur verið mögnuð en að þessu sinni reikna ég með að hún verið rafmögnuð,“ er haft eftir Michal Špaček markaðsstjóra tékkneska handknattleikssambandsins á heimasíðu þess.

Höfða til heimamanna

„Troðfull keppnishöll mun hvetja okkur til dáða og sigurs. Við erum reiðbúnir að leggja allt í sölurnar,“ sagði Xavier Sabate landsliðsþjálfari Tékka m.a. á blaðamannafundi þegar hann valdi keppnishóp sinn á dögunum.

Tomáš Mrkva landsliðsmarkvörður og leikmaður Kiel í Þýskalandi tekur í sama streng. Hann reiknar með að áhorfendur ríði baggamuninn fyrir tékkneska liðið í leiknum. „Það er alltaf frábær stemning á leikjum í Brno,“ er haft eftir Mrkva og víst er að það en engin tilviljun er að landsliðið leikur oft mikilvæga leiki í Brno, næst fjölmennustu borg Tékklands.

Vonast til að uppselt verði

Mestska hala Vodova-íþróttahöllinnimí Brno, eða „rauða helvítið“ eins og hún nefnist á morgun, rúmar 2.900 áhorfendur í sæti. Miðasala hafði gengið vel samkvæmt þeim fregnum sem bárust í gær og uppselt í nokkur hólf í áhorfendastúkunni. Vonir standa til þess að allir aðgöngumiðar seljist fyrir leikinn en ekki stendur til að selja miða við innganginn, samkvæmt fregnum á heimsíðu tékkneska handknattleikssambandsins. Miðasalan fer eingöngu fram á netinu.

Hafa ýmislegt reynt

Reynt verður með öllum lögum og ráðum að slá leikmenn íslenska landsliðsins út af laginu þegar hlið „rauða helvítisins“ verður opnað. Flestir leikmenn íslenska landsliðsins hafa reynt ýmislegt, bæði með landsliðinu og félagsliðum. Þar á meðal eru sex leikmenn í íslenska landsliðinu í dag sem tóku þátt í síðustu viðureign Íslands og Tékklands á handknattleiksvellinum.

Þriggja marka tap

Viðureignin sú fór fram í „rauða helvítinu“ 14. júní 2017 og lauk með þriggja marka sigri Tékka, 27:24. Tékkar voru með yfirhöndina allan leikinn, voru m.a. fimm mörkum yfir í hálfleik, 14:9, eftir einstaklega slakan sóknarleik íslenska landsliðsins í fyrri hálfleik. Áhorfendur voru 2.200 og víst er að stemningin var góð. Núverandi tíðindamaður handbolta.is var á meðal áhorfenda á þeirri viðureign á vegum annarrar útgerðar.

Ýmir Örn var á meðal nýliða

Leikmennirnir sex sem voru með í leiknum fyrir sex árum og verða í eldlínunni á morgun eru: Arnar Freyr Arnarsson, Aron Pálmarsson, Bjarki Már Elísson, Björgvin Páll Gústavsson, Janus Daði Smárason og Ýmir Örn Gíslason sem var nánast nýliði með landsliðinu á þessum tíma. Ýmir Örn var nýkominn af móti í Noregi með landsliðinu nokkrum dögum áður.

Fyrsti leikurinn í Ostrava

Tékkar hafa leikið einn heimaleik í undankeppni EM 2024. Þeir mættu Eistlendingum í Ostrava í austurhluta landsins 12. október og unnu örugglega, 31:23, eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir eftir fyrri hálfleik, 17:13. Alls mættu 3.500 áhorfendur á þann leik og fóru mikinn. Tékkneska landsliðið fylgdi sigrinum eftir með því að leggja Ísraelsmenn með 10 marka mun í Tel Aviv, 29:19.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -