Leikmönnum og þjálfurum þýska 2. deildar liðsins EHV Aue hefur verið skipað að fara í einangrun þangað til á miðvikudaginn í næstu viku þótt ekkert smit hafi greinst innan hópsins. Ástæðan er sú að smit hefur greinst hjá nokkrum leikmönnum Ferndorf-liðsins sem Aue lék við á sunnudaginn.
Þetta er a.m.k. í þriðja sinn sem Aue-liðið verður að fara í einangrun vegna kórónuveirunnar. Henni skaut tvisvar niður í hópinn í haust og í byrjun vetrar og veiktust nokkrir leikmenn auk þjálfarans sem varð lífshættulega veikur og er enn frá vinnu.
Enginn leikmaður Aue-liðsins, sem Rúnar Sigtryggsson þjálfar nú tímabundið, og Sveinbjörn Pétursson og Arnar Birkir Hálfdánsson leika með, hefur greinst smitaður í vikunni. Engu að síður þykir ástæða til að skipa öllum hópnum að fara í einangrun í nokkra daga sem fyrirbyggjandi ráðstöfun.
Aue vann góðan sigur á Dormagen í gærkvöld, 29:28, og fóru allir leikmenn í skimun í góðum tíma fyrir leikinn.
Leik Aue og HSV Hamburg, sem stóð til að færi fram á sunnudaginn, hefur verið frestað.