- Auglýsing -
Ómar Ingi Magnússon er í úrvalsliði þýsku 1. deildarinnar í handknattleik fyrir keppnistímabilið 2021/2022. Hann er eini Íslendingurinn í liðinu sem valið er í samkvæmt ýmsum tölfræðiþáttum sem teknir eru saman eftir hvern leik deildarinnar. Þetta er annað árið í röð sem Selfyssingurinn er í liði ársins.
Ómar Ingi var næst markahæsti leikmaður 1. deildar með 237/113 mörk auk þess sem hann var í hópi þeirra sem átti flestar stoðsendingar, alls 124 í 33 leikjum. Ómar Ingi missti af einum leik fyrir áramót vegna veikinda.
Fjórir leikmenn frá Flensburg-Handewitt eru í úrvalsliðinu, markvörðurinn Kevin Möller, vinstri hornamaðurinn Hampus Wanne, línumaðurinn Johannes Golla og miðjumaðurinn Jim Gottfridsson.
Sænski handknattleiksmaðurinn Simon Jeppsson hjá Erlangen er í stöðu vinstri skyttu. Sjöundi leikmaður liðsins er danski hornamaðurinn Hans Óttar Lindberg sem jafnframt varð markakóngur þýsku 1. deildarinnar með 242 mörk.
- Auglýsing -