- Auglýsing -
- Auglýsing -

Í ljós kemur úr hverju við erum gerðar

Díana Dögg Magnúsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Það getur varla gerst mikið stærra fyrir okkur en að mæta Ólympíumeisturum Frakka á heimsmeistaramóti. Þetta er stórstjörnulið með frábæra og reynda leikmenn í bland við yngri leikmenn sem eru ekkert síðri,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir leikreyndasti leikmaður kvennalandsliðsins í handknattleik um þessar mundir spurð út í 128. landsleikinn sem verður við heimsmeistara Frakka á morgun í DNB Arena í Stafangri.

Reynir enn meira á okkur

„Nú reynir aðeins meira á okkur. Í ljós kemur úr hverju við erum gerðar og hvað við ætlum að sýna eftir á köflum góðan leik á móti Slóvenum en þó með svekkjandi úrslitum eins og leikurinn spilaðist. Við verðum að núllstilla okkur og halda áfram,“ sagði Þórey Rósa sem gerir sér vonir um heilsteyptari leik þótt ljóst sé að brattan verði að sækja.

„Upphafsmínúturnar gegn Slóvenum voru ekki góðar en mögulega viðbúnar. Ég vil hins vegar hrósa okkur fyrir að hvernig við tókum okkur saman og náðum að koma til baka úr slæmri stöðu. Við vorum í þeirri stöðu í hálfleik þar sem möguleiki var á að núllstilla og vera í leik í síðari hálfleik. Persónulega þá fyrirgef ég okkur slæman upphafskafla af því að við komum til, þó ég vilji ekki endurtaka hann,“ sagði Þórey Rósa ákveðin.

Með kaldan haus

„Það þýðir ekkert annað en að fara með kaldan haus inn í leikinn. Við erum litla liðið meðan andstæðingurinn er með frábært lið og býr yfir mikilli reynslu. Við verðum bara að standa saman og berjast allar sem ein eins og íslensk lið hafa gert. Fyrir það viljum við standa.

Frakkar voru í basli með Angóla í gær. Færanýting þeirra var ekki góð auk þess sem Angóla skoraði 29 mörk. Ef Angóla tókst það, af hverju eigum við ekki að geta gert það líka?,” spurði Þórey Rósa sem vonast eftir meiri stöðugleika í íslenska liðið. Þótt slæmir kaflar hafi e.t.v. styttst þá séu þeir kostnaðarsamir þegar upp er staðið.

Stöðugleika skortir

„Við þurfum að ná meiri stöðugleika í okkar leik. Gegn Slóvenum voru tveir eða þrír kaflar þar sem við duttum alltof langt niður. Þessir kaflar voru okkur dýrir, ekki bara í leiknum í gær heldur einnig í Posten cup fyrir HM,” sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -