Arnór Atlason og liðsmenn hans í TTH Holstebro tryggðu sér í gær sæti í undanúrslitum um danska meistaratitilinn í handknattleik með jafntefli við GOG, 29:29, á útivelli í næst síðustu umferð riðlakeppni úrslitakeppninnar. TTH Holstebro er í öðru sæti riðils tvö. Átta liða úrslit fara fram í tveimur fjögurra liða riðlum. GOG er efst.
Í fallhættu fyrir ári
Fyrir ári lék TTH Holstebro í umspili um að halda sæti sínu í deildinni. Ljóst er að Arnór hefur unnið frábært starf hjá félaginu í kjölfar nokkurrar uppstokkunar í leikmannahópnum.
Fredericia HK, sem lék til úrslita um meistaratitilinn á síðasta ári, situr eftir með sárt ennið þetta árið undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar. Síðasta vonin um sæti í undanúrslitum fór út í veður og vind í gær þegar liðið tapaði fyrir Bjerringbro/Silkeborg á heimavelli, 32:27.
Einar Þorsteinn Ólafsson lék með Fredericia HK.
Tvö mörk Guðmundar Braga
Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði tvö mörk úr vítaköstum fyrir Bjerringbro/Silkeborg sem er í þriðja sæti riðilsins en er úr leik í keppninni um sæti í undanúrslitum eins og Fredericia sem mætir GOG í lokaumferðinni. Á sama tíma eigast við Bjerringbro/Silkeborg og TTH Holstebro.
Í hinum riðli átta liða úrslita standa Aalborg Håndbold og Skjern best að vígi þegar tvær umferðir eru óleiknar.