ÍBV tyllti sér í efsta sæti Olísdeildar í kvöld með stórsigri á ÍR, 36:24, í upphafsleik 11. umferðar í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum í kvöld. ÍBV var sex mörkum yfir í hálfleik, 19:13. Þetta var annað tap ÍR í röð á nokkrum dögum og er nú fjórum stigum á eftir ÍBV og tveimur stigum á eftir Val sem sækir KA/Þór heim í KA-heimilið annað kvöld. KA/Þór verður einmitt fyrsti andstæðingur ÍR-inga þegar þráðurinn verður tekinn upp aftur í Olísdeild kvenna 10. janúar.
Framan af viðureigninni í Vestmannaeyjum stefndi ekki í stórsigur ÍBV. Jafnt var fram eftir öllum fyrri hálfleik. Að loknum 22 mínútum stóðu leikar jafnir, 11:11. Hafði þá verið pattstaða í leiknum í nokkrar mínútur og ekkert skorað.
Upp úr leikhléi í jafnri stöðu tók Eyjaliðið undir sig stökk og skoraði fjögur mörk í röð og sló ÍR-inga út af laginu. Segja má að þeir hafi aldrei fundið taktinn á ný. Varnarleikur ÍBV var öflugur og ÍR-ingar skoruðu aðeins tvö mörk á 12 mínútna kafla fram að hálfleik en þá stóð, 19:13.
Í síðari hálfleik réði ÍBV lögum og lofum, jafnt í vörn sem sókn. ÍR-ingar áttu erfitt uppdráttar og lentu fljótlega níu mörkum undir. Þar með var ljóst hvert stefndi og ÍBV vann öruggan sigur og fer með góðar minningar frá síðasta leik ársins inn í jóla- og nýársleyfi.
Mörk ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir 11, Sandra Erlingsdóttir 9/2, Amelía Dís Einarsdóttir 5, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 4, Birna Dögg Egilsdóttir 2, Birna María Unnarsdóttir 2, Ásta Björt Júlíusdóttir 1, Britney Emilie Florianne Cots 1, Ásdís Halla Hjarðar 1.
Varin skot: Amalia Froland 8, 26,7% – Ólöf Maren Bjarnadóttir 2, 50%.
Mörk ÍR: Sara Dögg Hjaltadóttir 6/2, Katrín Tinna Jensdóttir 6/1, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 3, Matthildur Lilja Jónsdóttir 3, Vaka Líf Kristinsdóttir 2, Dagbjört Ýr Ólafsdóttir 2, María Leifsdóttir 1, Erla María Magnúsdóttir 1.
Varin skot: Sif Hallgrímsdóttir 7, 16,7%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.


