ÍBV vann Aftureldingu, 35:20, í annarri umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í kvöld. Eins og tölurnar gefa e.t.v. til kynna var mikill munur á liðunum. Staðan í hálfleik var 21:11 fyrir ÍBV. Þetta var fyrsti sigur ÍBV í deildinni á leiktíðinni en Afturelding hefur á hinn bóginn tapað báðum viðureignum sínum til þessa.
ÍBV-liðið tók öll völd á leikvellinum strax í byrjun. Um miðjan hálfleikinn var munurinn orðinn sex mörk. Sóknarleikur Aftureldingar gekk illa sem varð þess valdandi að ÍBV-liðið fékk talsvert af hraðaupphlaupum.
Ekki bætti úr skák hjá Aftureldingu að markvörðuinn efnilegi Eva Dís Sigurðardóttir var meidd og þurfti útileikmaðurinn Susan Ines Gamboa að hlaupa í skarðið.
Næsti leikur Aftureldingar verður við Stjörnuna á Varmá 16. október. Enn lengra er í næsta leik ÍBV því eftir landsleikjahléið um mánaðarmótin tekur við þátttaka í Evrópubikarkeppninni um miðjan október.
Fylgst var með leiknum í texta og stöðuppfærslu sem er að finna hér fyrir neðan.
Mörk ÍBV: Harpa Valey Gylfadóttir 11, Lina Cardell 10, Elísa Elíasdóttir 5, Sunna Jónsdóttir 3, Marija Jovanovic 2, Karolina Loszowa 2, Bríet Ómarsdóttir 2.
Mörk Aftureldingar: Ólöf Marín Hlynsdóttir 7, Telma Rut Frímannsdóttir 3, Katrín Helga Davíðsdóttir 3, Sylvía Björt Blöndal 2, Katrín Hallgrímsdóttir 2, Emilía Guðrún Hauksdóttir 2, Lovísa Líf Helenudóttir 1.