Dregið var í aðra umferð í Evrópubikarkeppni karla í handknattleik karla í morgun og voru nöfn þriggja íslenskra félagsliða í skálunum sem dregið var úr.
ÍBV, sem ennþá á eftir að leika við Holon HC frá Ísrael, mætir Donbas Donetsk frá austurhluta Úkraínu í annarri umferð takist Eyjamönnum að vinna ísraelska liðið samanlagt í tveimur leikjum sem fram fara í Vestmannaeyjum um næstu helgi.
KA mætir annað hvort Dimamidis Argous frá Grikklandi eða HC Fivers frá Austurríki í annarri umferð Evrópubikarkeppninnar sem verður leikin síðstu helgina í október og fyrstu helgina í nóvember. Síðari leikurinn verður þá á Akureyri 5. eða 6. nóvember.
Dimamidis Argous og HC Fivers eiga eftir að mætast í fyrstu umferð keppninnar um næstu og þar næstu helgi.
Annað árið í röð drógust Haukar á móti félagsliði frá Kýpur. Að þessu sinni mæta Haukar Sabbianco Famagusta. Kýpurliðið kom á undan upp úr skálinni sem dregið var úr og á þar með heimaleikjarétt í fyrri umferðinni 29. eða 30. október.
Haukar mættu Parnassos Strovolou á síðasta ári í Evrópubikarkeppninni og léku þá báða leiki á Kýpur. Haukar unnu örugglega og komust áfram í næstu umferð.