- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÍBV kom, sá og sigraði – Hrafnhildur Hanna átti stórleik

ÍBV mætir PAOK frá Grikklandi. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

ÍBV gerði sér lítið fyrir og lagði deildarmeistara KA/Þórs í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Olísdeildar kvenna í handknattleik í KA-heimilinu í dag, 27:26, og hefur þar með tekið forystu í einvígi liðanna.  Næsta viðureign liðanna verður í Vestmannaeyjum á miðvikudaginn og vinni ÍBV-liðið á ný er það komið í úrslit. KA/Þór var þremur mörkum yfir í hálfleik, 14:11, og náði mest fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik.

ÍBV-liðið barðist hinsvegar af krafti frá upphafi og komst í fyrst sinn yfir eftir 42 mínútur, 18:16. Í kjölfarið komst ÍBV um skeið þremur mörkum yfir í tvígang. KA/Þórsliðinu tókst aldrei að jafna metin eftir að ÍBV komst yfir. Fremur óvæntur sigur var staðreynd og ljóst að Akureyringar mæta með bakið upp að veggnum til Vestmannaeyja á miðvikudaginn.

Nokkrar sveiflur voru í fyrri hálfleik. Deildarmeistararnir byrjuðu vel og skoruðu þrjú fyrstu mörkin og fjögur af fyrstu fimm.  ÍBV-liðið vann sig út úr erfiðleikunum og náði að minnka muninn í eitt mark, 8:7, rétt upp eftir miðja fyrri hálfleik og halda í KA/Þórsliðið um stund. Þegar á leið fyrri hálfleik bætti heimaliðið í og náði fjögurr marka forystu rétt fyrir lok fyrri hálfleiks, 14:10.

Birna Berg Haraldsdóttir hefur ekki jafnað sig af ökklameiðslum sem hún varð fyrir nokkrum dögum áður en ÍBV mætti Stjörnunni í fyrsta leik í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Eins er Sunna Jónsdóttir ekki komin af stað af krafti eftir álagsbrot sem hún hlaut í landsleik fyrir um tveimur mánuðum.

Vaskur hópur um 50 stuðningsmanna kom með ÍBV-liðinu í beinu flugi norður skapaði skemmtilega umgjörð  í kringum leikinn ásamt áhangendum deildarmeistara KA/Þórs. Þessi góðu stuðningur fleytti ÍBV-liðinu yfir erfiða hjalla í leiknum.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir bar uppi sóknarleik ÍBV og átti stórleik með 11 mörk. Vörnin var sterk, ekki síst í síðari hálfleik, á sama tíma og Marta Wawrzykowska varði vel í markinu fyrir utan að skora tvö mörk.

Mörk KA/Þórs: Rakel Sara Elvarsdóttir 6, Ásdís Guðmundsdóttir 5/3, Aldís Ásta Heimisdóttir 4, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 4, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 3, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1, Martha Hermannsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 11, 34,4%.

Mörk ÍBV: Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 11, Ásta Björt Júlíusdóttir 8/2, Karolina Olszowa 2, Marta Wawrzykowska Elías Elíasdóttir 1, Lina Cardell 1, Sunna Jónsdóttir 1, Kristrún Ósk Hlynsdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 14, 35,9%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -