- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÍBV og Valur komust í undanúrslit fyrir tveimur áratugum

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


Íslandsmeistarar Vals í handknattleik kvenna eiga fyrir höndum á sunnudaginn síðari leikinn við Slóvakíumeistara MSK IUVENTA Michalovce í undanúrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik. Takist Val að snúa viðureigninni sér í hag og vinna með þriggja marka mun brýtur liðið blað í sögu kvennahandknattleiks á Íslandi.

Áður en Valur náði inn í undanúrslit í síðasta mánuði höfðu aðeins tvö íslensk kvennalið náð svo langt í Evrópukeppni félagsliða. Annarsvegar ÍBV keppnistímabilið 2003/2004 og Valur 2005/2006.

Hér fyrir neðan er þátttaka liðanna rifjuð stuttlega upp en bæði lið féllu úr keppni eftir undanúrslit.

Aðalsteinn með ÍBV

Keppnistímabilið 2003/2004 komst íslenskt kvennalið í fyrsta sinn í undanúrslit í Evrópukeppni. Lið ÍBV undir stjórn Aðalstein Eyjólfssonar var byggt upp af talsverðum metnaði og var skipað leikmönnum víða að úr Evrópu. Ákveðið var að taka þátt í Áskorendakeppninni sem síðar fékk heitið Evrópubikarkeppnin. Búlgarskt lið var fyrsti andstæðingurinn. ÍBV vann það auðveldlega, 55:34, í tveimur leikjum.

Í 16 liða úrslitum mætti ÍBV franska liðinu Havre og vann útileikinn með átta marka mun, 30:22, og lagði þar með grunn að þátttöku í átta liða úrslitum. Síðari leiknum sem fram fór í Vestmannaeyjum lauk með jafntefli, 27:27.

Miklar sveiflur

ÍBV lék við króatíska liðið Salonastit Vranjic í átta liða úrslitum og fóru báðar viðureignir fram í Eyjum 12. og 13. mars 2004 og voru afar kaflaskiptar. ÍBV vann fyrri leikinn, 37:26, og virtist þar með orðið öruggt með sæti í undanúrslitum. Daginn eftir snerust vopnin nærri því í höndum Eyjaliðsins en því tókst þó að bjarga sér fyrir horn og tapa „aðeins“ með níu mörkum, 32:23, og vinna samtals með tveggja marka mun.

Þýskur ofjarl

ÍBV fékk þýska liðið Nürnberg í undanúrslitum. Skemmst er frá að segja að þá mætti ÍBV ofjarli sínum. Í fyrri viðureigninni í Nürnberg tapaði ÍBV með 16 marka mun, 38:22. Sú síðari sem fram fór í Vestmannaeyjum tapaðist einnig, 36:25. Þess má til gamans geta að í þessari rimmu mættust austurrískar systur, Silvia Strass leikmaður ÍBV og Barbara Strass sem var liðsmaður Nürnberg. Þýska liðið vann rúmenskt félagslið í úrslitaleikjum keppninnar.

Síðari viðureign Vals og slóvakísku meistararnir MSK IUVENTA Michalovc fer fram í N1-höllinni á Hlíðarenda á sunnudaginn. Flautað verður til leiks klukkan 17.30.
Rétt er að hvetja handknattleiksáhugafólk til þess að fjölmenna á Hlíðarenda á sunnudaginn og styðja Valsliðið til sigurs. Íslenskt kvennalið hefur aldrei leikið til úrslita í Evrópukeppni félagsliða.

Ágúst Þór með Val

Tveimur árum síðar, keppnistímabilið 2005/2006 fylgdi kvennalið Vals árangri ÍBV eftir og náði inn í undanúrslit undir stjórn Ágústs Þórs Jóhannssonar sem hafði á þeim tíma Karl Erlingsson sér til halds og trausts.

Grikkland og Sviss

Valur sat yfir í forkeppninni og einnig í fyrstu umferð aðalkeppninnar. Í sextán liða úrslitum mætti Valur gríska liðinu Athina Kos. Grikkirnir höfðu betur á heimavelli, 26:24, en fengu magalendingu á heimavelli Vals, og tapaði, 37:29.
Í átta liða úrslitum vann Valur LC Brühl frá Sviss í tveimur leikjum sem fram fóru í Reykjavík, 25:21 og 32:27.

Við ramman reip að draga

Við ramman reip var að draga fyrir Valsliðið í undanúrslitum gegn Tomis Constanta frá Rúmeníu. Valur tapaði fyrri leiknum í Constanta með 12 marka mun, 37:25.

Valskonur lögðu síður en svo árar í bát þótt á móti blési. Þær hertu róðurinn og lögðu allt í sölurnar til að snúa taflinu við í síðari leiknum. Þær léku afar vel og voru með sjö marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 20:13, í hröðum og skemmtilegum leik á Hlíðarenda. Rúmenum tókst að halda sjó í síðari hálfleik sem dugði til að komast áfram. Valur vann, 35:28, í hörkuleik en féll úr keppni. Drífa Skúladóttir fór hamförum í leiknum, skoraði 10 mörk og var einnig aðsópsmikil í varnarleiknum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -