Eftir að ÍBV komst í undanúrslit Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld er ljóst að Eyjamenn mæta annað hvort Val eða KA í undanúrslitum. Það skýrist annað kvöld eftir að Valur og KA mætast öðru sinni í Origohöllinni.
Eina sem breytist er að heimaleikjarétturinn fylgir ekki með. ÍBV mun alltaf byrja heima og eiga útileikinn í síðari umferð, hvort sem þeir mæta Val eða KA í undanúrslitum.
Þar af leiðandi mun sigurliðið úr rimmu Hauka og Aftureldingar mæta annað hvort Selfossi eða Stjörnunni. Breytir engu þótt svo ólíklega vildi til að Afturelding tækist að slá Hauka út í kvöld eftir tíu marka tap í fyrri leiknum.
Uppfært kl. 21.50: Haukar eru komnir í undanúrslit.
Þótt leikjum úrslitakeppninnar hafi verið fækkað talsvert verður leikjaniðurröðun óbreytt frá því verið hefur um langt árabil. Þ.e. að nú tekur ÍBV sæti FH og mætir liðinu sem vinnur rimmu liðanna sem höfnuðu í þriðja og sjötta sæti.
Mörgum ætti e.t.v. að vera í fersku minni þegar Valur hafnaði í sjöunda sæti vorið 2017 og vann ÍBV í átta liða úrslitum. Valur tók þá sæti ÍBV en ÍBV varð þá í öðru sæti í deildinni. Valur lék við Fram í undanúrslitum sem varð í sjötta sæti í deildinni en tók þriðja sæti með því að leggja Hauka í átta liða úrslitum. Haukar voru þá í fjórða sæti í deildinni.