Deildarmeistarar ÍBV eru komnir með einn vinning í undanúrslitarimmunni við Hauka í Olísdeild kvenna í handknattleik. ÍBV vann nokkuð öruggan sigur þegar upp var staðið í fyrsta leik liðanna í Vestmannaeyjum í dag, 29:22.
Næsta viðureign fer fram á Ásvöllum á mánudaginn. Flautað verður til leiks klukkan 15.
Haukar veittu ÍBV harða keppni í fyrri hálfleik í Vestmannaeyjum. Aðeins var tveggja marka munur að honum loknum, 12:10. Haukar skoruðu þrjú fyrstu mörk síðari hálfleiks og komust yfir, 13:12. Eyjamenn svöruðu að bragði og komust yfir og voru með forskot allt til leiksloka.
Öflugur varnarleikur ÍBV-liðsins lagði grunn að sigrinum að þessu sinni. Á síðasta stundarfjórðungi leiksins jókst munurinn jafnt og þétt og var e.t.v. meiri þegar upp var staðið en gangur leiksins sagði lengst af til um.
Mörk ÍBV: Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 11/2, Birna Berg Haraldsdóttir 5, Sunna Jónsdóttir 5, Elísa Elíasdóttir 4, Harpa Valey Gylfadóttir 3, Bríet Ómarsdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 12/1, 36,4%, Ólöf Maren Bjarnadóttir 2, 66,7%.
Mörk Hauka: Elín Klara Þorkelsdóttir 7/3, Natasja Hammer 7, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 4, Berglind Benediktsdóttir 1, Birta Lind Jóhannsdóttir 1, Ragnheiður Ragnarsdóttir 1, Ragnheiður Sveinsdóttir 1.
Varin skot: Margrét Einarsdóttir 6, 21,4% – Elísa Helga Sigurðardóttir 1, 14,3%.