- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÍBV var skrefi á undan

Sigurður Bragason, þjálfari, og leikmenn ÍBV. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

ÍBV komst upp í þriðja sæti Olísdeildar kvenna í handknattleik í dag með eins marks sigri á Val, 21:20, í Origohöllinni eftir að hafa einnig verið marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 12:11. ÍBV hefur þar með 11 stig þegar 10 leikir eru að baki, eru með jafnmörg stig og Valur en stendur betur að vígi í innbyrðisviðureignum. Eyjaliðið hefur unnið þá báða með eins marks mun.


Lið ÍBV var sterkara í fyrri hálfleik, ekki síst var varnarleikur liðsins öflugur og gerði sóknarmönnum Vals oft lífið leitt. ÍBV var lengst af með frumkvæðið en tókst aldrei að slíta sig frá liði Vals sem fékk góðan liðsstyrk fyrir átökin í hinni þrautreyndu Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur sem hefur tekið fram skóna á ný. Hún mun tvímælalaust hið minnsta styrkja varnarleik liðsins.


Valur varð fyrir nokkru áfalli á 24. mínútu þegar Ragnhildur Edda Þórðardóttir missteig sig illa á vinstra ökkla þegar hún fór inn úr vinstra horninu. Lina Cardell steig í veg fyrir Ragnhildi og uppskar rautt spjald frá Svavari Ólafi Péturssyni og Sigurði Hirti Þrastarsyni, dómurum.
ÍBV var marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 12:11.


Sterkur varnarleikur ÍBV gerði leikmönnum Vals áfram erfitt um vik í síðari hálfleik auk þess sem Marta Wawrzykowska var vel á verði í markinu. ÍBV náði tveggja marka forskoti og hefði getað náð betri stöðu ef Saga Sif Gísladóttir, markvörður Vals, hefði ekki varið tvö vítaköst með skömmu millibili á fyrsta stundarfjórðungnum.


Eyjaliðinu tókst að halda forystu sinni leikinn út með mikill baráttu auk þess sem Valsliðið fór illa að ráði sínu þegar það fékk boltann þegar 20 sekúndur voru til leiksloka. Ótímabært skot Mariam Eradze að marki ÍBV sem varið var af varnarmanni gerði út um síðustu von Vals að ná í annað stigið.


Fargi var vafalaust létt af leikmönnum ÍBV að fara með bæði stigin eftir jafnan leik. Jafnir leikir hafa ekki fallið með Eyjaliðinu eftir að keppni hófst aftur í janúar.


Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 6/3, Mariam Eradze 4, Lovísa Thompson 3, Ragnhildur Edda Þórðardóttir 2, Thea Imani Sturludóttir 2, Auður Ester Gestsdóttir 2, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 13, 39,4 %.
Mörk ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir 7, Karolina Olszowa 3, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 3, Sunna Jónsdóttir 3, Elísa Elíasdóttir 3, Ásta Björt Júlíusdóttir 2/2.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 13, 39,4%.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Staðan í Olísdeild kvenna.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -