ÍBV varð í kvöld fjórða liðið til þess að öðlast sæti í undanúrslitum Powerade-bikarsins í handknattleik kvenna. ÍBV vann Stjörnuna með eins marks mun, 23:22, eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik, 12:7.
Undanúrslitaleikir Powerade-bikarsins fara fram miðvikudaginn 15. mars í Laugardalshöllinni. Auk ÍBV eiga Haukar, Selfoss og Valur sæti í undanúrslitum áður en dregið verður til undanúrslita.
Stjörnuliðið náði sér engan vegin á strik í sókninni í leiknum í kvöld fyrr en á allra síðustu mínútunum. Það var aðeins of seint. Stjarnan gerði of mörg einföld mistök í sókninni, ekki síst í fyrri hálfleik þegar liðið tapaði boltanum 10 sinnum.
Varnarleikur ÍBV var mjög góður og markvarslan hjá báðum liðum var til fyrirmyndar.
ÍBV var með þriggja til fimm marka forskot nær allan síðari hálfleikinn og þótt litlu hafi munað þegar upp var staðið þá var sigurinn sanngjarn. Þetta var 13. sigur ÍBV í röð í deild og bikar.
Mörk Stjörnunnar: Helena Rut Örvarsdóttir 5, Anna Karen Hansdóttir 5, Lena Margrét Valdimarsdóttir 4, Britney Cots 3, Elísabet Gunnarsdóttir 2, Eva Björk Davíðsdóttir 2, Stefanía Theodórsdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 13, 36,1%.
Mörk ÍBV: Sunna Jónsdóttir 6, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 4/1, Birna Berg Haraldsdóttir 4, Elísa Elíasdóttir 3, Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 2, Bríet Ómarsdóttir 1, Ingibjørg Olsen 1, Ásta Björt Júlíusdóttir 1, Harpa Valey Gylfadóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 11, 33,3%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum á leikjavakt.