- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Innherjaupplýsingar komu sér vel“

Andri Már Rúnarsson er á leiðinni til Hauka. Mynd/EHF Kolektiffimages
- Auglýsing -

„Innherjaupplýsingar komu sér vel,“ sagði Rúnar Sigtryggsson þjálfari Hauka sposkur á svip þegar handbolti.is innti hann eftir nýjustu viðbótinni í Haukaliðið sem tilkynnt var um í dag. Sonur Rúnars, Andri Már, gekk til liðs við Hauka frá þýska 1. deildarliðinu Stuttgart. Um er að ræða ein stærstu félagaskipti sumarsins og það rétt áður en flautað verður til leiks í Olísdeildinnni. Haukar taka á móti KA-mönnum í fyrstu umferð á föstudagskvöld á Ásvöllum.

Var ekki inni í myndinni

„Andri var með fjögurra ára samning við Stuttgart. Nýr þjálfari liðsins sagði hinsvegar að hann væri ekki inni í sínum hugmyndum fyrir tímabilið. Til greina kom að Andri fær á leigu til annars félags innan Þýskalands en ekkert spennandi kom til álita. Forráðamenn Stuttgart spurði Andra þar með hvað hann vildi gera. Hann sagðist bara vilja losna undan samningi. Félagið var við því og þá komu innherjaupplýsingarnar sér vel,“ sagði Rúnar.


„Við vorum bara fyrstir af stað að tala við Andra enda vissi ekkert annað lið á þessum tíma að hann væri að hugsa sér til hreyfings,“ sagði Rúnar ennfremur en Andri Már hefur áður leikið undir stjórn föður síns, m.a. hjá Stjörnunni 2018 til 2020.

Fleiri vopn í búrinu

Rúnar segir að burtséð frá þeirri staðreynd að um son sinn sé að ræða þá leiki enginn vafi á að vopnunum fjölgi í herbúðum Hauka með komu Andra Más sem gerði það mjög gott með U20 ára landsliði Íslands á EM í sumar. M.a. varð hann stoðsendingakóngur mótsins.

Haukar hafa reynsluna

„Ég setti mitt spurningamerki við að fá Andra en þeir sem stjórna deildinni voru alveg vissir um að semja við hann. Þeir hafa reynslu af því að þjálfarinn eigi leikmann í liðinu. Aron Kristjánsson stýrði Haukum í fyrra og hitteðfyrra með Darra son sinn innanborðs. Það gekk vel. Svo lengi sem maður er samkvæmur sjálfum sér tel ég það ekki verða vandamál að vera með son minn í hópi leikamanna liðsins sem ég þjálfa,“ sagði Rúnar ákveðinn.


Andri Már getur leikið á miðjunni og eins í vinstri skyttunni. Rúnar segir það ekkert flækja málin þótt annar leikmaður U20 ára landsliðsins og Hauka, Guðmundur Bragi Ástþórsson, sé innanborðs. „Breiddin verður bara mjög mikil, að minnsta kosti á meðan að enginn er meiddur.“

Bjartsýnn á tímabilið

Haukar hafa styrkst upp á síðkastið. Auk Andra Más samdi liðið við Matas Pranckevicius markvörður frá Litáen á dögunum. Heimir Óli Heimisson tók ákvörðun að taka slaginn áfram á komandi leiktíð.


„Ég er mjög bjartsýnn á tímabilið. Hópurinn er mjög þéttur hjá okkur og breiddin er góð. Ég er alveg viss um að niðurstaða spárinnar sem kynnt var í hádeginu um að við verðum í fimmta sæti gengur ekki eftir,“ sagði Rúnar Sigtryggsson þjálfari karlaliðs Hauka glaður í bragði.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -