„Leikurinn var á okkar forsendum lungann úr síðari hálfleik sem var út af fyrir sig gott en gerðist of seint að mínu mati. En við unnum öruggan sigur þegar upp var staðið sem skipti öllu máli. Nú förum við yfir málin og lögum það sem við getum fyrir leikinn á sunnudaginn þar sem við ætlum okkur einnig að ná í tvö stig,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik við handbolta.is eftir sex marka sigur á landsliði Bosníu í fyrstu umferð undankeppni EM í handknattleik karla í Laugardalshöll í kvöld, 32:26. Staðan var jöfn í síðari hálfleik.
Var hægur og stirður
„Okkur tókst aldrei að stýra hraðanum í sóknarleiknum í fyrri hálfleik. Sóknarleikurinn var hægur og stirður og við létum alltof mikið brjóta á okkur. Innkoman hjá Steina [Þorsteini Leó Gunnarssyni] í síðari hálfleik hjó á hnútinn. Þá losnaði um alla aðra í kjölfarið, menn eins og Janus Daða og Ómar Inga sem gengu á lagið og léku mikið betri sókanrleik,“ sagði Snorri Steinn sem sagði Bosníumenn hafa gert vel eins og mátti búast við enda með hörkulið. „Þeir reyndust okkur erfiðir lengi vel,“ bætti Snorri Steinn við.
Ánægður með varnarleikinn
Landsliðsþjálfari var ánægður með varnarleikinn nánast frá upphafi til enda en þótti hann samt sem áður ekki skila sér í nægilega mörgum hraðaupphlaupum eins e.t.v. hefði verið eðilegt.
Undankeppni EM karla “26: úrslit leikja og staðan
Gerum betur á sunnudaginn
„Við nýtum tímann til þess að fara vel yfir þessa viðureign og læra af henni á þeim tíma sem við höfum fram að viðureigninni á sunnudaginn. Markmiðið er að leika betur á sunnudaginn og ná í tvö stig,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari og vísaði til viðureignarinnar við Georgíu sem fram fer í Tíblisi á sunnudaginn klukkan 14.
Grikkir unnu Georgíumenn í hinum leik 3. riðils undankeppninnar í kvöld eins og lesa má um hér.
Þrátt fyrir að njóta ekki ríkisstyrkja og vera hundsaður og spiladellufyrirtæki íþróttahreyfingarinnar þá verður handbolti.is með í för í Tíblisi og flytur þaðan fréttir.
A-landslið karla – fréttasíða.
- Ísland er í riðli með Bosníu, Georgíu og Grikklandi í undankeppni Evrópumótsins 2026. Framundan eru tveir leikir hjá íslenska liðinu í undankeppninni. Auk leiksins við Bosníu í kvöld mætir íslenska landsliðið Georgíumönnum í Tíblisi á sunnudaginn.
- Næstu leikir íslenska landsliðsins verða um miðjan mars, heima og heiman gegn Grikklandi. Undankeppninni lýkur í byrjun maí með leikjum við Bosníu ytra og heima á móti Georgíu.
- Undankeppni EM er leikin í átta riðlum með fjórum liðum í hverjum. Tvö efstu lið hvers riðils tryggir sér farseðilinn í lokakeppni EM sem fram fer í Danmörku, Noregi og Svíþjóð frá 15. janúar til 1. febrúar 2026. Einnig komast fjögur landslið sem hafna í þriðja sæti í lokakeppnina.
- Þegar hefur verið ákveðið að íslenska landsliðið leiki í riðli sem fram fer í Kristianstad takist liðinu að tryggja sér þátttökurétt.