- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

ÍR lagði Íslandsmeistarana í dramatískum leik

- Auglýsing -

ÍR lagði Val, 25:24, í dramatískum leik í Olísdeild kvenna í handknattleik í N1-höllinni á Hlíðarenda í kvöld. Sara Dögg Hjaltadóttir skoraði sigurmark ÍR úr vítakasti 10 sekúndum fyrir leikslok. Vítakastið var dæmt fyrir óljósar sakir Valsliðsins, nokkrum sekúndum eftir að Thea Imani Sturludóttir jafnaði metin fyrir Val í hraðaupphlaupi. Í framhaldinu hóf ÍR leik á miðju en skyndilega var flautað og leikurinn stöðvaður.

Eftir nokkra reikistefnu dómara og eftirlitsmanns var niðurstaðan sú að sýna Theu rauða spjaldið og dæma ÍR vítakast sem Sara Dögg skoraði örugglega úr sigurmarkið, 25:24.

Nærri búnar að jafna

Valur hóf sókn á síðustu sekúndunum og Þórey Anna Ásgeirsdóttir fékk marktækifæri til að jafna leikinn úr hægra horni en henni lánaðist ekki að skora. ÍR-ingar fögnuðu ákaft enda eru eflaust liðnir áratugir síðan að ÍR vann Val í efstu deild kvenna í handknattleik.

Þótt eitt og annað hafi orkað tvímælis á síðustu sekúndum leiksins þá unnu ÍR-ingar sannarlega fyrir sigrinum. Liðið var með yfirhöndina nær allan tímann og hafði um skeið þriggja marka forskot í síðari hálfleik, 21:18.

Val tókst að skora fjögur mörk í röð og komast yfir, 22:21, þegar fimm mínútur voru eftir af leiktímanum. Í framhaldinu komu hinsvegar þrjár slakar sóknir hjá Val, misheppnað vítakast, stangarskot úr opnu færi og loks vann Katrín Tinna Jensdóttir boltann í vörn ÍR er hún kom inn á völlinn eftir að hafa setið af sér refsingu hálfri mínútu fyrir leikslok. ÍR-liðinu varð hinsvegar ekki kápan úr því klæðinu vegna þess að Thea Imani komst inn í sendingu, brunaði fram og jafnaði, 24:24, þegar 15 sekúndur eða þar um bil voru til leiksloka. Eftir það tók aðdragandinn að sigurmarkinu, rauða spjaldinu og síðustu sókn Val þar sem möguleikinn á jöfnunarmarki á síðustu sekúndum gekk liðinu úr greipum.

Áður hafði Matthildur Lilja komið ÍR yfir, 24:23, mínútu fyrir leikslok þegar ÍR-ingar voru manni færri.

Sif Hallgrímsdóttir og Matthildur Lilja Jónsdóttir leikmenn ÍR. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Staðan var jöfn í hálfleik, 12:12.

Eftir viðureignina í kvöld eru Valur og ÍR jöfn að stigum í efsta sæti Olísdeildar með 14 stig. ÍBV getur komist upp að hlið þeirra með sigri á Stjörnunni á laugardaginn. Þar með væri þrjú lið jöfn að stigum þegar hlé verður gert á keppni í Olísdeild kvenna vegna heimsmeistaramóts kvenna sem hefst eftir hálfan mánuð.


Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 8/7, Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 5, Thea Imani Sturludóttir 4, Elísa Elíasdóttir 3, Lovísa Thompson 3, Arna Karitas Eiríksdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 8, 26,7% – Elísabet Millý Elíasardóttir 0.

Mörk ÍR: Sara Dögg Hjaltadóttir 11/5, Katrín Tinna Jensdóttir 4, Vaka Líf Kristinsdóttir 3, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 2, Sigrún Ása Ásgrímsdóttir 2, Matthildur Lilja Jónsdóttir 2, Dagbjört Ýr Ólafsdóttir 1.
Varin skot: Sif Hallgrímsdóttir 12/1, 33,3%.

Tölfræði leiksins.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -