ÍR-ingar veittu Íslandsmeisturum Vals alvöru viðnám í síðari hálfleik í viðureign liðanna í Olísdeild karla í handknattleik i Skógarseli í kvöld. Það nægði ÍR-liðinu þó ekki til þess að krækja í stig en um skeið tókst þeim að velgja meisturunum undir uggum. Lokatölur voru, 36:32, fyrir Val sem var með sex marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 18:12.
Með sigrinum eru Valsmenn farnir að lyfta höndum í átt að deildarmeistarabikarnum.
ÍR tókst að minnka forskot Valsara niður í tvö mörk, 31:29, þegar liðlega sex mínútur voru til leiksloka. Nær komust þeir ekki en leikur liðsins, einkum í síðari hálfleik, var framhald af góðum sigri á KA á sunnudaginn og nokkuð sem ÍR-liðið getur byggt á fyrir næstu viðureignir á endaspretti Olísdeildarinnar. Leikurinn í kvöld var upphafsviðureign 17. umferðar deildarinnar.
Valsmenn gerðu það sem þeir þurftu til þess að vinna leikinn eftir sigurinn glæsilega á PAUC í Evrópudeildinni á þriðjudaginn. Framundan er ferð til Svíþjóðar og síðasti leikur riðlakeppni Evrópudeildarinnar á þriðjudaginn.
Valur hefur nú 10 stiga forskot á toppnum á FH-inga sem eiga leik til góða við Hauka á mánudagskvöldið.
ÍR er næst neðst með átta stig þegar liðið á fimm leiki eftir. Þrjú stig skilja ÍR og KA sem er í 10. sæti með 11 stig.
Mörk ÍR: Viktor Sigurðsson 9, Dagur Sverrir Kristjánsson 8/4, Sveinn Brynjar Agnarsson 4, Bjarki Steinn Þórisson 4, Friðrik Hólm Jónsson 3, Arnar Freyr Guðmundsson 1, Úlfur Gunnar Kjartansson 1, Róbert Snær Örvarsson 1, Hrannar Ingi Jóhannsson 1.
Varin skot: Ólafur Rafn Gíslason 27% – Rökkvi Pacheco Steinunnarson 1/1, 50%.
Mörk Vals: Magnús Óli Magnússon 7/2, Stiven Tobar Valencia 5, Arnór Snær Óskarsson 4/3, Benedikt Gunnar Óskarsson 4, Þorgils Jón Svölu Baldursson 4, Tjörvi Týr Gíslason 4, Vignir Stefánsson 4, Agnar Smári Jónsson 3, Bergur Elí Rúnarsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 12, 33% – Motoki Sakai 0.
Staðan í Olísdeild karla.