Markvörðurinn Ísak Steinsson hefur skrifað undir nýjan samning við norska úrvalsdeildarliðið Drammen HK. Samningurinn gildir til loka leiktíðarinnar vorið 2028 en fyrri samningur Ísak við félagið frá árinu 2024 var með gildistíma til ársins 2027.
Ísak hefur verið með annan fótinn í íslenska landsliðinu á árinu og lék sinn fyrsta landsleik gegn Grikkjum í mars og var einnig í landsliðshópnum í maí. Einnig hefur Ísak á undanförnum árum verið í yngri landsliðum Íslands og var síðast með á HM 21 árs landsliða í Póllandi í sumar.

Ísak, sem er tvítugur, hefur verið annar tveggja markvarða aðalliðs Drammen HK, síðustu tvö keppnistímabils og vakið verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína í ungu og upprennandi liði Drammen sem situr í sjötta sæti úrvalsdeildarinnar að loknum átta umferðum.
Veðjaði á tvo unga markverði
Kristian Kjelling þjálfari Drammen þótti taka talsverða áhættu sumarið 2024 þegar hann ákvað að veðja á tvo unga markverði, Ísak og Oscar Larsen Syvertsen sem er árinu eldri en Ísak. Það hefur hinsvegar sýnt sig að hafi verið þess virði og báðir hafa staðið fyrir sínu.





