Handknattleikmaðurinn Ísak Gústafsson hefur samið við danska úrvalsdeildarliðið TMS Ringsted til tveggja ára. Samningur hans við félagið tekur gildi í sumar. Ísak, er 21 árs og uppalinn á Selfossi og lék með liði Selfoss upp í meistaraflokk en skipti yfir í raðir Valsara sumarið 2023 og hefur verið þar síðan í mikilvægu hlutverki, m.a. þegar Valur vann Evrópubikarinn síðasta vor.
Frá komu Ísaks greinir TMS Ringsted á heimasíðu sinni í dag.
Ísak reif liðþófa í hné í lok nóvember og hefur síðan ekkert leikið með Val en vonir standa til þess að hann verði klár í slaginn á ný fljótlega, hugsanlega gegn FH annað kvöld.
„Ég er mjög spenntur fyrir að prófa eitthvað nýtt og spennandi í öðru landi,“ sagði Ísak í skilaboðum til handbolta.is í kvöld.
Ísak hefur skoraði 46 mörk í 10 leikjum í Olísdeildinni á yfirstandandi keppnistímabili auk þess að taka þátt í leikjum Vals í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í október og nóvember.
TMS Ringsted er með bækistöðvar í Ringsted á Sjálandi. Lið félagsins situr um þessar mundir í 11. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar.
Ísak lék með yngri landsliðum Íslands og var m.a. í 21 árs landsliðinu sem vann bronsverðlaun á heimsmeistaramótinu sumarið 2023.