Þegar markvörðurinn Ísak Steinsson (19 ára), Drammen í Noregi, leikur sinn fyrsta landsleik í handknattleik í Chalkida í Grikklandi í dag, eru 50 ár síðan afi hans Sigurgeir Sigurðsson lék sinn síðasta landsleik af níu í markinu; gegn Pólverjum í Laugardalshöllinni. Við hliðina á Ísak verður reynsluboltinn Björgvin Páll Gústafsson, 39 ára, sem lék sinn fyrsta landsleik af 281 gegn Pólverjum 2003, 22:22, en þá var Ísak ekki fæddur; fæddist 1. maí 2005. Það verður gaman að sjá hvernig þessir tveir kappar vinna saman.
Sigurgeir lék 9 landsleiki fyrir Ísland. Hann var 21 árs leikmaður Hauka er hann lék fyrstu tvo leiki sína gegn Norðmönnum í Bergen og Moss 1973. Svo skemmtilega vildi til að hinn markvörðurinn og aðalmarkvörður landsliðsins var Gunnar Einarsson, sem lék einnig með Haukum.
Víkingar voru á höttum eftir markverði 1973 og höfðu þá samband við Sigurgeir (21 árs), sem þeir töldu að myndi styrkja Víkingsliðið mikið. Þar sem Gunnar Einarsson var orðinn aðalmarkvörður Hauka, fannst Sigurgeiri tímabært að breyta til og gerast aðalmarkvörður Víkings, en honum til halds og trausts var stórskyttan Rósmundur Jónsson (32 ára), sem var alltaf tilbúinn að hlaupa í skarðið.
Sigurgeir var happafengur fyrir Víking og átti stóran þátt í að Víkingur varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti 1975, en Víkingar börðust þá undir stjórn þjálfarans snjalla Karls G. Benediktssonar við Val, FH og Fram, sem þeir skutu ref fyrir rass.
Sjá einnig: Stórt fyrir mig að fá að vera með
50 ár frá fyrsta meistaratitli Víkings
Það eru liðin 50 ár í dag síðan Víkingar tryggðu sér Íslandsmeistaratitlinn (12. mars 1975) með því að leggja Valsmenn að velli 13:11. Sigurgeir átti þá stórleik gegn „Mulningsvélinni.“ Það var valinn maður í hverju rúmi hjá Víkingi sem átti síðan eftir að verða stórveldi undir stjórn Bogdan Kowalczyk.
Meistarar Víkings voru: Sigurgeir, Rósmundur, Ólafur Jónsson, Magnús Guðmundsson, Einar Magnússon, Þorbergur Aðalsteinsson, Viggó Sigurðsson, Stefán Halldórsson, Páll Björgvinsson, Skarphéðinn Óskarsson, Sigfús Guðmundsson, Erlendur Magnússon, Jón G. Sigurðsson og Ólafur Friðriksson. Jón Hjaltalín Magnússon var við nám í Svíþjóð.
Sigurgeir og Rósmundur voru markverðir Íslands í tveimur landsleikjum gegn Pólverjum 1975, en það ár lék Sigurgeir 7 landsleiki; en Ólafur Benediktsson, Val var þá aðalmarkvörður landsliðsins.
Þegar Rósmundur lék tvo landsleiki sem markvörður 1975, voru tólf ár liðin (1963) frá því að hann lék sem skytta í landsleik gegn Spánverjum í Bilbao og skoraði eitt mark.
Leikur Grikklands og Íslands hefst klukkan 17 að íslenskum tíma í dag. Síðari viðureignin fer fram á laugardaginn í Laugardalshöll. Miðasala er midix.is.