Handknattleiksmaðurinn efnilegi Ísak Logi Einarsson hefur ákveðið að ganga til liðs við Stjörnuna. Ísak Logi hefur undanfarin á verið með Val og var m.a. annað slagið í leikmannahópi meistaraflokks í vetur sem leið. Hann byrjaði hinsvegar að æfa handknattleik með Stjörnunni og þar með kominn heim, ef svo má segja.
Ísak Logi er hávaxinn og þykir efnileg skytta sem vakið hefur talsverða athygli og gert það gott með yngri liðum Vals.
„Ísak Logi er mjög efnilegur leikmaður og á eftir að styrkja okkar lið mjög mikið. Hann hefur góða tækni og mikinn metnað til að ná langt í íþróttinni. Hlakka til að vinna með honum og er sannfærður um að hann á eftir að passa vel inn í okkar lið í Garðabænum,“ segir Patrekur Jóhannesson, þjálfari meistaraflokksliðs Stjörnunnar í tilkynningu sem handknattleiksdeild Stjörnunnar lét frá sér fara í morgun vegna komu Ísaks Loga.
Einhverjar breytingar
Ljóst er að einhverjar breytingar verða á leikmannahópi Stjörnunnar. Arnór Freyr Stefánsson markvörður ætlar að helga sig þjálfun markvarða félagsins og Brynjar Hólm Grétarsson gekk til liðs við uppeldisfélag sitt, Þór, á dögunum. Gunnar Steinn Jónsson lét hafa það eftir sér þegar Stjarnan féll úr leik í átta lið úrslitum Olísdeildar að hann ætlaði að leggjast undir feld og íhuga þar framtíð sína á handknattleiksvellinum. Eins er ómögulegt að segja hvaða pól hinn þrautreyndi Björgvin Þór Hólmgeirsson tekur.
Tandri Már Konráðsson, fyrirliði Stjörnunnar, staðfesti á hinn bóginn á dögunum að hann fari hvergi þrátt fyrir orðróm í aðra veru.