Íslenska landsliðið tapaði fyrir danska landsliðinu með tveggja marka mun, 32:30, í 8-liða úrslitum heimsmeistaramóts 19 ára landsliða karla í handknattleik í Kaíró í dag. Leikur íslenska liðsins var afar kaflaskiptur, því miður. Fyrri hálfleikur frábær en síðari hálfleikur var miður góður, ekki síst hvað varðaði sóknarleikinn.
Ísland leikur þar með í krossspili um sæti fimm til átta á morgun við Ungverjaland eða Þýskaland.
Ísland var fimm mörkum yfir í hálfleik, 17:12, eftir frábæran leik jafnt í vörn sem sókn. Fljótlega í síðari hálfleik var ljóst að Danir ætluðu að setja undir lekann. Þeir styrktu vörn sína og tókst að fækka sóknarmistökum sínum. Um leið og danska liðið styrkti varnarleik sinn jókst þeim þróttur í hraðaupphlaupum.
Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður var staðan jöfn, 20:20. Fljótlega eftir það komst danska liðið yfir og lét yfirhöndina aldrei af hendi.
Mestur varð munurinn fimm mörk, 30:25. Íslensku piltarnir lögðu allt í sölurnar á allra síðustu mínútunum en höfðu ekki erindi sem erfiði.
Mörk Íslands: Ágúst Guðmundsson 8/3, Garðar Ingi Sindrason 8, Dagur Árni Heimisson 6, Bessi Teitsson 3, Jens Bragi Bergþórsson 2, Stefán Magni Hjartarson 2, Andri Erlingsson 1.
Varin skot: Jens Sigurðarson 7, 21% – Sigurjón Bragi Atlason 1/1, 20%.
Mörk Danmerkur: Oscar Hansen 6, Magnus Boysen 6, Frederik Jespersen 5, Kasper Kjargaard 3, Emil Sørensen 2, Villdas Aggersbjerg 2, Emil Hansen 2, Mads Jørgensen 2, Alexander Jensen 2, Snorre Bang Krog 1, Jeppe Poulsen 1.
Varin skot: Johannes Dalsgaard 9, 38% – Carl Poulsen 1, 6%.
HM19-’25: Leikjadagskrá – leikir um sæti
Handbolti.is fylgdist með viðureigninni í textalýsingu hér fyrir neðan.