- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ísland er paradís – seldi bíl til að eiga fyrir fargjaldinu

Susan Ines Gamboa leikur áfram með Aftureldingu. Mynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

Susan Ines Gamboa er væntanlega fyrsti handknattleiksmaðurinn frá Venesúela sem leikur í deildarkeppni hér á landi. Hún er nú á sínu þriðja keppnistímabili og líkar lífið vel hér á landi. Ísland er paradís að hennar mati. Ekki ríkir eftirsjá að hafa kvatt heimalandið við Karabíahaf fyrir þremur árum, selt bílinn til þess að öngla saman fyrir fargjaldi til Íslands og hefja nýtt líf í gjörólíku landi. Sannarlega saknar hún fjölskyldu sinnar sem býr í Venesúela en Gamboa reynir að létta þeim örlítið erfitt líf í landi þar sem flest er í kalda koli.


„Ég vissi nánast ekkert um Ísland þegar ég ákvað að koma hingað, nema kannski að það væri kalt,“ segir Gamboa glaðvær en handbolti.is hitti hana að máli íþróttahúsinu að Varmá í Mosfellsbæ á dögunum.

Maður klæðir sig bara vel

„Ég hef ekki sett veðráttuna fyrir mig. Maður klæðir sig bara vel. Ísland er líkast paradís fyrir mig,“ segir Gamboa sem flutti fyrst til Akureyrar fyrir þremur árum þar sem vinkona hennar bjó og lék blak með KA. Gamboa reyndi fyrir sér í handboltanum á Akureyri en skaut ekki rótum.


Eftir skamma dvöl á Akureyri flutti Gamboa suður til Reykjavíkur og komst í kynni við Aftureldingu í Mosfellsbæ.

Susan Ines Gamboa með félögum sínum í Aftureldingu þegar þær tryggðu sér sæti í Olísdeildinni í vor. Mynd/Raggi Óla

Mín ástríða og áhugamál

„Ég fékk að mæta á æfingar hjá Aftureldingu haustið 2019. Eftir nokkrar æfingar var mér að sagt að mér væri velkomið að halda áfram að æfa og leika með liðinu. Síðan hef ég verið með Aftureldingu sem ég er mjög ánægð með. Handknattleikur er mín ástríða og áhugamál,“ segir Gamboa sem er 32 ára gömul og byrjaði að æfa handknattleik 15 ára gömul. Áður hafði hún æft og leikið körfuknattleik frá 15 ára aldri. Faðir Gamboa var nokkuð þekktur körfuknatteiksmaður á sínum yngri árum.

Tekið opnum örmum

„Ég féll strax vel inn í hópinn í kringum Aftureldingu þar sem allir hafa verið boðnir og búnir að aðstoða mig. Mér var strax tekið opnum örmum innan vallar sem utan. Ég er afar þakklát fyrir allan þann stuðning sem ég hef fengið hjá liðsfélögum, þjálfurum og hjá þeim sem stýra félaginu.“

Vinnur í íþróttahúsiu

Handknattleikurinn er þó aðeins áhugamál Gamboa því hún vinnur í íþróttamannvirkjunum á Varmá alla virka daga frá því snemma á morgnana og fram yfir hádegið. Eins og annað hér á landi þá kann hún vel við vinnuna og samstarfsfólkið.


Handknattleikur er ekki útbreiddasta íþróttin í Venesúela. Gamboa segir íþróttina þó vera útbreiddari en margir telja að óreyndu þótt sannarlega sé blak, knattspyrna og körfuknattleikur mun útbreiddari íþróttir og eitthvað sem flestir þekkja til.

Var eitt spurningamerki

„Vinir mínir kynntu mig fyrir handknattleik. Í fyrstu var ég eitt spurningamerki en síðan fór ég á æfingu og byrjaði að leika handknattleik í framhaldinu. Fljótt fann ég að íþróttin átti vel við mig. Ég fékk ást á handknattleik vegna þess að mér þótti og þykir enn íþróttin vera óútreiknanlegri en til dæmis körfuknattleikur.

Susan Ines Gamboa, þriðja frá hægri, viðbúin að hlaupa inn á leikvöllinni. Mynd/Raggi Óla


Lengi vel voru í gangi landslið og félagslið í landinu og keppni í yngri og eldri flokkum. Hinsvegar hefur farið svo með flestir íþróttir í landinu að mjög hefur hallað undan fæti í réttu hlutfalli við ástandið í landinu enda eiga flestir nóg með að halda lífi í sér,“ segir Gamboa og breytir verulega um tón í röddinni þegar talið færist að stöðu mála í Venesúela.

Varð að fara

„Ástandið er hörmulega slæmt og því miður lítið fyrir mig að gera. Mér var nauðugur sá kostur að yfirgefa heimalandið og hefja líf einhverstaðar annarstaðar utan Venesúela. Ég ákvað því að elta vinkonu mína sem þegar var komin til Íslands. Ég seldi bílinn sem ég átti og keypti flugmiða aðra leið til Íslands. Síðan hef ég verið hér í nærri því þrjú ár,” segir Gamboa og bætir við.

Framtíðin er á Íslandi

„Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að koma og búa á Íslandi. Hér á landi getur maður lifað öruggu lífi. Á Íslandi hef ég vinnu og hér er stöðugt ástand í flestum málum. Lífið hér á landi verður ekki borið saman við lífið í Venesúela. Ég sé framtíð mína á Íslandi og hvergi annarstaðar,” segir Susan Ines Gamboa.


Síðari hluti viðtalsins birtist á handbolti.is á morgun, miðvikudag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -