Íslenska landsliðið tekur í þriðja sinn þátt í heimsmeistaramóti kvenna þegar blásið verður til leiks á mótinu sem fram fer í Hollandi og Þýskalandi frá 26. nóvember til 14. desember. Ísland var í kvöld 20. þjóðin sem tryggir sér sæti á HM 2025.
Ísland var með á HM 2011 sem haldið var í Brasilíu og aftur 12 árum síðar þegar leikið var í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Íslenska landsliðið vann úkraínska landsliðið í umspili fyrir HM 2011 en fékk boðskort á HM 2023.
Fimm leikstaðir
Leikstaðir HM 2025 verða fimm; Dortmund, Trier og Stuttgart í Þýskalandi og Rotterdam og s-Hertogenbosch, betur þekkt sem Den Bosch, í Hollandi. Dregið verður í riðla fimmtudaginn 22. maí í s-Hertogenbosch.
Ísland er 20. þjóðin sem tryggir sér þátttökurétt á HM 2025 en að vanda verða landslið 32 þjóða með á mótinu. Fleiri bætast í hópinn um næstu helgi þegar umspili Evrópuhlutans verður lokið.
Þjóðirnar 20 sem hafa aflað sér þátttökuréttar eru:
- Holland og Þýskaland, gestgjafar.
- Frakkland, heimsmeistari 2023.
- Noregur, Evrópumeistari 2024.
- Danmörk og Ungverjaland, silfur- og bronslið EM 2024.
- Bandaríkin, boðskort.
- Kína, boðskort.
- Argentína, Brasilía, Úrúgvæ frá Mið- og Suður-Ameríku.
- Angóla, Egyptaland, Senegal, Túnis frá Afríku.
- Íran, Kasakstan, Japan og Suður Kórea frá Asíu.
- Ísland, umspil Evrópu.