- Auglýsing -
Ísland var í gær fyrsta þjóðin til þess að tryggja sér einn af 20 farseðlum á Evrópumót karla í handknattleik sem fram fer í Danmörku, Noregi og Svíþjóð frá 15. janúar til 1. febrúar á næsta ári. Fleiri þjóðir fylgja örugglega í kjölfarið þegar fjórðu umferð lýkur í dag en aðeins fóru tveir leikir fram í gær.
Auk sigurs íslenska landsliðsins á Grikkjum í Laugardalshöll vann þýska landsliðið, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, austurríska landsliðið í Hannover, 31:26. Þýska liðinu vantar eitt stig til þess að gulltryggja EM-sæti.
- Alls taka 24 landslið þátt í EM á næsta ári. Auk gestgjafanna þriggja, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar eru Evrópumeistarar Frakka með frátekið sæti í lokakeppninni og eru þar af leiðandi ekki með í undankeppninni.
- Fleiri landslið geta bæst í hópinn með íslenska landsliðinu í dag.
- Slóvenar eru öruggir um sæti á EM 2026 vinni þeir Norður Makedóníu á heimavelli í dag.

- Ungverjar þurfa að leggja Svartfellinga í Tatabánya í Ungverjalandi í dag.
- Króatar, undir stjórn Dags Sigurðssonar, verða öruggir um sæti á EM 2026 leggi þeir Tékka í kvöld.
- Portúgal ætti að vera öruggt um sæti á EM 2026 lánist þeim að leggja Pólverja í Odivelas í Portúgal í dag.
- Eflaust eiga fleiri þjóðir stærðfræðilega möguleika á EM sæti þegar öll kurl verða komin til grafar að loknum leikum fjórðu umferðar í kvöld.