Íslenska landsliðið í handknattleik karla vann það gríska, 33:21, í Laugardalshöll í kvöld. Sigurinn tryggði Íslandi þátttökurétt á EM í janúar á næsta ári sem fram fer í Danmörku, Noregi og Svíþjóð 15. janúar til 1. febrúar á næsta ári. Þetta verður 14. Evrópumótið í röð sem Ísland tekur þátt í.
Eins og fyrri viðureigninni við Grikki þá var munurinn mikill á liðunum frá upphafi til enda og margt var líkt með leikjunum þótt sannarlega hafi síðari hálfleikurinn verið betri hjá íslenska liðinu í dag en ytra.

Troðfullt var í Laugardalshöll og rífandi góð stemning frá upphafi til enda.
Síðustu tveir landsleikirnir í riðlakeppninni verða 7. og 11. maí, ytra gegn Bosníu og á heimavelli við Georgíu.
Íslenska landsliðið byrjði leikinn af miklum myndugleika og skoraði fyrstu sex mörkin. Grikkir náðu ekki að svara fyrr en eftir nærri átta mínútur með fyrsta marki sínu. Reyndar skoruðu þeir þrjú mörk í röð áður en Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði sjöunda mark Íslands eftir hraðaupphlaup, 7:3.
Varnarleikur íslenska liðsins var afar góður í fyrri hálfleik og líktist þeim sem var í fyrri viðureigninni ytra. Þar á ofan varði Björgvin Páll frábærlega í markinu, alls 11 skot, 55%, í hálfleiknum mínúturnar 30 voru gerðar upp.

Sóknarleikur íslenska liðsins gekk afar vel fyrsti 20 – 25 mínúturnar og eftir 25 mínútur var staðan, 15:6. Í hálfleik var sjö marka munur, 16:9, en var 19:9, að loknum 30 mínútum í Chalkida á miðvikudaginn.
Petros Boukovinas var besti leikmaður gríska liðsins í fyrri hálfleik með níu varin skot.
Eftir örlítil lausatök á upphafsmínútum síðari hálfleiks þá gaf íslenska liðið allt í leikinn, jafnt í vörn sem sókn. Ýmir Örn Gíslason kom forskoti í 10 mörk, 23:13, eftir 43 mínútur og Andri Már Rúnarsson jók muninn í 11 mörk, 25:14, þegar síðari hálfleikur var hálfnaður.

Grikkjum tókst að minnka muninn niður í níu mörk áður en íslenska liðið gaf í aftur undir lokin og vann með 12 marka mun, 33:21.
Yngri og óreyndari leikmenn fengu drjúgt tækifæri til þess að spreyta sig og fjórir þeirra léku í fyrsta sinn landsleik á heimavelli, Arnór Snær Óskarsson, Andri Már Rúnarsson, Benedikt Gunnar Óskarsson og Ísak Steinsson.
Mörk Íslands: Janus Daði Smárason 4, Andri Már Rúnarsson 4, Sigvaldi Björn Guðjónsson 3, Stiven Tobar Valencia 3, Haukur Þrastarson 3, Orri Freyr Þorkelsson 3/2, Þorsteinn Leó Gunnarsson 3, Óðinn Þór Ríkharðsson 3, Kristján Örn Kristjánsson 2, Elliði Snær Viðarsson 2, Einar Þorsteinn Ólafsson 1, Ýmir Örn Gíslason 1, Arnór Snær Óskarsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 15, 48,4% – Ísak Steinsson 1, 25%.
Handbolti.is var í Laugardalshöll og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.