Torsóttur og tæpur var sigur íslenska landsliðsins á því hollenska í annarri umferð B-riðils Evrópumóts karla í MVM Dome í Búdapest í kvöld, 29:28. Síðustu mínútur leiksins voru hnífjafnar og æsilega spennandi. Íslensku piltunum tókst að halda boltanum síðustu 30 sekúndur leiksins og vinna eftir að sóknarbrot var dæmt á hollenska liðið.
Tveggja marka munur var á liðunum að loknum fyrri hálfleik, 15:13, Íslandi í hag. Mestur varð munurinn fjögur mörk, 23:19, rétt fyrir miðjan síðari hálfleik. Þá bitu leikmenn hollenska liðsins hressilega frá sér og voru ekki langt frá að tryggja sér annað stigið. 5/1 varnarleikur hollenska liðsins reyndist íslenska liðinu erfiður þegar á leikinn leið.
Íslenska liðið lék nokkuð vel þótt á köflum hafi nýting opinna færa mátt vera betri.
Með þessum sigri er Ísland komið í efsta sæti B-riðils. Enn er of snemmt að fagna því þrátt fyrir tvo sigurleiki er enn fyrir hendi sá möguleiki að íslenska liðið sitji eftir með sárt ennið á þriðjudagskvöld. Framundan er leikur við Ungverja á þriðjdagskvöld sem verður að skila a.m.k. einu stigi til að tryggja framhaldið.
Mörk Íslands: Sigvaldi Björn Guðjónsson 8, Aron Pálmarsson 6, Ómar Ingi Magnússon 4/3, Gísli Þorgeir Kristjánsson 4, Viggó Kristjánsson 2, Elliði Snær Viðarsson 2, Bjarki Már Elísson 1, Elvar Örn Jónsson 1, Ýmir Örn Gíslason 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 9, 31% – Viktor Gísli Hallgrímsson 0.
Kay Smits skoraði 13 mörk fyrir hollenska landsliðið, þaraf sjö úr vítaköstum.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.