Ísland tryggði sér í dag sæti í undanúrslitum Evrópumóts karla með því að vinna glæsilegan sigur á Slóveníu, 39:31, í lokaumferð milliriðils 2 í Malmö Arena í Malmö í Svíþjóð.
Ísland leikur þar með í undanúrslitum Evrópumóts í þriðja skipti í sögunni. Það gerði íslenska liðið einnig á EM 2010 og vann þá til bronsverðlauna, auk þess að hafna í fjórða sæti á EM 2002.
Stórbrotinn síðari hálfleikur skóp sigurinn þar sem svo til allt gekk upp. Staðan í hálfleik var 18:16, Íslandi í vil, en í þeim síðari stakk íslenska liðið það slóvenska af, komst mest níu mörkum yfir og vann að lokum með átta mörkum.
Mörk Íslands: Elliði Snær Viðarsson 8, Óðinn Þór Ríkharðsson 7, Ómar Ingi Magnússon 7/2, Orri Freyr Þorkelsson 4, Bjarki Már Elísson 3, Janus Daði Smárason 3, Haukur Þrastarson 2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 2, Viggó Kristjánsson 1, Arnar Freyr Arnarsson 1, Teitur Örn Einarsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 7, Björgvin Páll Gústavsson 0.
Handbolti.is er í Malmö Arena og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.


