Íslenska landsliðið lauk þátttöku á heimsmeistaramótinu í handknattleik kvenna í kvöld með sannfærandi sigri á færeyska landsliðinu, 33:30, í stórskemmtilegum og spennandi leik í Westfalenhalle í Dortmund. Íslenska liðið var með yfirhöndina í 50 mínútur gegn baráttuglöðu færeysku liði. Ísland var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 16:14.
Eins og leikmenn og landsliðsþjálfari sögðu í viðtölum fyrir leikinn var hungur fyrir hendi til þess að ljúka heimsmeistaramótinu á viðeigandi hátt, þ.e. á sigri. Hálfri mínútu fyrir leikslok sást Arnar Pétursson landsliðsþjálfari varpa öndinni léttar þegar ljóst var að sigurinn var í höfn. Leikplanið gekk upp; íslenska landsliðið var sterkara en það færeyska, svörin voru á hreinu og það sem meira var, liðið hélt út af krafti til síðustu mínútu. Vel fór á því að Katrín Tinna Jensdóttir skoraði síðasta mark Íslands á HM eftir að hafa staðið í ströngu burðarhlutverki í vörn jafnt sem sókn á sínu fyrsta stórmóti eftir að hafa stigið úr skugganum.
Eftir jafnar fyrstu mínútur skoraði íslenska liðið þrjú mörk í röð og komst yfir, 7:5, þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af viðureigninni. Mikill hraði var á fyrsta stundarfjórðungnum. Vörn íslenska liðsins gekk vel og Færeyingar léku sig í ógöngur hvað eftir annað.
Þegar 16 mínútur voru liðnar af leiknum hafði íslenska liðið sex marka forskot um skeið. Þjálfarar færeyska liðsins tóku þá annað leikhlé sitt á skömmum tíma. Þeir breyttu vörninni, fóru nánast í 3/3 vörn sem setti íslenska liðið í nokkurn vanda. Auk þess mætti fyrrverandi markvörður Hauka, Annika Friðheim Petersen í markið. Hún þekkti íslensku leikmennina og varði nokkur skot. Færeyska liðið sótti í sig veðrið á ný og minnkaði muninn í tvö mörk. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 16:14, Íslandi í vil.
Síðari hálfleikinn hóf íslenska liðið af krafti og skoraði tvö fyrstu mörkin og gaf tóninn fyrir framhaldið. Það hafði svör við sjö á sex sóknarleik Færeyinga og náði meira að segja að nýta sér hann til þess að skora auðveld mörk. Um miðjan síðari hálfleik var munurinn fimm mörk, 26:21. Færeyingar minnkuðu muninn í eitt mark, 28:27. Nær komst það ekki. Ísland fór í sjö á sex í sókninni undir lokin og vann frábæran sigur og fer með góðar minningar og mikla reynslu heim frá mótinu.
Mörk Íslands: Elín Klara Þorkelsdóttir 8, Katrín Tinna Jensdóttir 6, Sandra Erlingsdóttir 4, Thea Imani Sturludóttir 4, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 3, Dana Björg Guðmundsdóttir 2, Elísa Elísdóttir 2, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 9, 24%.

Handbolti.is var í Westfalenhalle og fylgist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.










