Ísland leikur til úrslita á Sparkassen Cup handknattleiksmóti landsliða, skipað leikmönnum 19 ára og yngri í karlaflokki, síðar í dag. Íslenska liðið vann Serba í miklum baráttuleik, 28:27, eftir að hafa átt undir högg að sækja lengi vel. M.a. var þriggja marka munur í hálfleik, 16:13.
Reikna má með að A-landslið Þýskalands mæti íslenska landsliðinu í úrslitaleiknum sem hefst klukkan 18. Hægt verður að kaupa aðgang að útsendingu frá leiknum á slóðinni: https://handball-globe.tv/sparkassencup-merzig.
Serbar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 16:13, eftir að hafa verið með yfirhöndina allan hálfleikinn. Snemma í síðari hálfleik fór munurinn upp í fjögur mörk, 18:14. Eftir það tóku íslensku strákanir sig á. Garðar Ingi Sindrason skoraði fjögur mörk í röð. Bessi Teitsson jafnaði metin, 20:20, og kom íslenska liðinu yfir, 22:21.
Serbar gáfu sinn hlut ekki eftir átakalaust eins og gefur að skilja. Einn þeirra fékk rautt spjald fimm mínútum fyrir leikslok eftir að hafa verið full ákafur við varnarleikinn. Íslensku piltarnir nýttu sér liðsmuninn og náðu tveggja marka forskoti sem Serbum tókst ekki að jafna áður en leiktíminn var úti.
Hér fyrir neðan er myndskeið af fögnuðu íslensku piltanna í leikslok.
Mörk Íslands: Garðar Ingi Sindrason 11/6, Stefán Magni Hjartarson 5, Baldur Fritz Bjarnason 4/2, Bessi Teitsson 3, Elís Þór Aðalsteinsson 2, Andri Erlingsson 1, Ágúst Guðmundsson 1, Dagur Leó Fannarsson 1.
Varin skot: Jens Sigurðarson 3, Sigurjón Bragi Atlason 3.