Íslenska landsliðið í handknattleik karla vann öruggan sigur á vængbrotnu landsliði Slóvena, 32:26, í vináttulandsleik í Paris La Défense Arena í kvöld. Frábær fyrri hálfleikur lagði grunn að sigrinum en að honum loknum var íslenska liðið átta mörkum yfir, 21:13. Síðari leikur íslenska landsliðsins í Frakklandsferðinni verður á sunnudaginn gegn Austurríki eða Frakklandi en lið þjóðanna eigast við síðar í kvöld.
Vika er fram að fyrsta leik íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í handknattleik.
Íslenska liðið fór á kostum í fyrri hálfleik, jafnt í vörn sem sókn. Slóvenar náðu engum takti í sóknarleik sínum og varnarleikurinn var afleitur gegn hröðum og skemmtilegum leik Íslands.
Í upphafi síðari hálfleiks náði íslenska liðið tíu marka forskoti, 23:13. Á Slóvena rann mesti hamur í upphafi hálfleiksins. Þeir tóku að berja frá sér í vörninni. Segja má að lengst af fyrstu 15 mínútum síðari hálfleiks hafi leikurinn á tíðum verið hrein vitleysa. M.a. fékk einn Slóvena rautt spjald og víst að huga hefði mátt að því að fleiri samherjar hans fengu einnig að líta spjaldið. En upp úr þessu kom að Slóvenar skoruðu m.a. fimm mörk í röð og minnkuðu muninn í fimm mörk og síðan fjögur mörk, 26:22, þegar innan við stundarfjórðungur var til leiksloka. Íslenska liðinu tókst hins vegar að finna taktinn á nýjan leik og slíta sig frá Slóvenum. Staðan fór úr 26:22 í 31:23 og sigurinn varð vís.
Mörk Íslands: Orri Freyr Þorkelsson 8/4, Gísli Þorgeir Kristjánsson 5, Elliði Snær Viðarsson 4, Ómar Ingi Magnússon 4/1, Bjarki Már Elísson 3, Janus Daði Smárason 3, Arnar Freyr Arnarsson 2, Elvar Örn Jónsson 2.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 16/1, 38%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.





