Þriðja stórmótið í röð dróst íslenska landsliðið í riðil með Ungverjum þegar dregið var í riðla Evrópumóts karla í handknattleik í Düsseldorf í dag. Ísland verður í sannkölluðum austur-Evrópuriðli á mótinu því auk Ungverja verða Serbar og Svartfellingar andstæðingar í riðlinum sem leikinn verður í Ólympíuhöllinni í München frá 12., 14. og 16. janúar.
Mótið fer fram fram frá 10. til 28. janúar á næsta ári. Þýskaland og Sviss mætast í upphafsleiknum á MERKUR Spiel-Arena í Düsseldorf að viðstöddum 50 þúsund áhorfendum.
Um leið og búið var að draga þá skýrðist í hvaða röð leikir Íslands verða í riðlakeppninni
12. janúar: Ísland – Serbía.
14. janúar: Ísland – Svartfjallaland.
16. janúar: Íslands – Ungverjaland.
Tvær efstu þjóðir hvers riðils komast áfram í milliriðla. Ef íslenska landsliðið kemst áfram flytur það sig um set til Kölnar og mætir tveimur efstu liðum A og B-riðils. Leikdagar í milliriðli verða 18., 20., 22. og 24. janúar í Lanxess-Arena í Köln.
Ísland var í riðli með Ungverjum á EM 2022 og á HM í upphafi þessa árs. Huggun er harmi gegn að litlar líkur eru á leik við Portúgal sem hefur elt Ísland eins og skugginn á stórmótum í undankeppni mörg undanfarin ár.
Eftifarandi lið drógust saman:
A-riðill: | B-riðill: | C-riðill: |
Düss./Berlín | Mannheim | München |
Frakkland | Spánn | Ísland |
Þýskaland | Austurríki | Ungverjaland |
N-Makedónía | Króatía | Serbía |
Sviss | Rúmenía | Sv.fjallaland |
D-riðill: | E-riðill: | F-riðill: |
Berlín | Mannheim | München |
Noregur | Svíþjóð | Danmörk |
Slóvenía | Holland | Portúgal |
Pólland | Bosnía | Tékkland |
Færeyjar | Georgía | Grikkland |
Handknattleikssamband Ísland segir í tilkynningu að miðasala fyrir stuðningsmenn Íslands hefjist á næstu dögum. Væntanlega tryggir sambandið sér talsverðan fjölda miða.