Ísland verður í efri styrkleikaflokki þegar dregið verður í umspilsleiki fyrir heimsmeistaramót kvenna sunnudaginn 15. desember í Vínarborg. Sú staðreynd að Ísland verður í efri styrkleikaflokki þýðir að væntanlegur andstæðingur verður talinn veikari.
Þar með aukast líkurnar á að íslenska landsliðið verði á meðal þátttökuliða á heimsmeistaramótinu í handknattleik kvenna sem fram fer í Hollandi og Þýskalandi frá 27. nóvember til 14. desember á næsta ári.
Þetta verður í fyrsta sinn sem Ísland á sæti í efri styrkleikaflokki þegar dregið verður í umspilsleiki HM. Þess má geta Færeyingar verða einnig í efri flokknum en þeir hreppa síðasta sætið af ellefu. Færeyingar höfnuðu í 17. sæti á EM, næst á eftir Íslandi.
22 landslið verða dregin saman í umspilið 15. desember. Þeim verður skipti í efri flokk og neðri flokki. Úr því fást 11 einvígi sem fram fara í apríl. Leikið verður heima og að heiman og kemst samanlagður sigurvegari tveggja leikja á HM 2025.
Sex landslið sem taka þátt í EM 2024 verða ekki með í umspilinu, þ.e. heimsmeistarar Frakka, gestgjafar HM, Holland og Þýskaland auk þriggja efstu landsliða á mótinu fyrir utan þær þrjár þjóðir sem þegar hafa verið taldar upp.
Sex lið sleppa umspili
Til að einfalda málið má segja að sex af 24 þátttökuliðum EM 2024 sleppi við umspilið. Átján lið standa eftir sem öll fara í umspilið, af þeim verða ellefu í efri styrkleikaflokki. Í neðri flokknum verða sjö neðstu lið EM 2024 auk fjögurra skástu landsliðanna sem ekki komust inn á mótið.
Íslenska landsliðið hafnar í 16. sæti á Evrópumótinu með fjórða besta árangur liðanna sem enduðu í þriðja sæti í riðlakeppninni.
Fyrir HM 2023 tapaði íslenska landsliðið fyrir ungverska landsliðinu í umspili um keppnisrétt á HM og tveimur árum áður beið íslenska landsliðið lægri hlut fyrir Slóvenum í umspili. Síðast komst Ísland inn á HM eftir sigur í umspili vorið 2011 þegar Ísland vann Úkraínu. Um leið er það einnig í eina skiptið sem Ísland hefur komist á HM kvenna með sigri í umspilsleikjum.