- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ísland verður með á HM í 22. sinn – Fyrsta HM markið var skorað í Magdeburg 1958

Leikmenn íslenska landsliðsins sem tryggðu Íslandi þátttökurétt á HM á næsta ári. Mynd/J.L.Long

Íslenska landsliðið í handknattleik karla tryggði sér í gær keppnisrétt á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Svíþjóð og Póllandi 11. til 29. janúar 2023. Heimsmeistaramótið verður það 28. í röðinni. Verður íslenska landsliðið á meðal þátttakenda í 22. sinni, þar af í 11. skiptið á þessari öld. Frá 1986 hafa aðeins verið haldin tvö heimsmeistaramót án íslenska lansliðsins, 1999 í Egyptalandi og 2009 í Króatíu.

Gunnlaugur skoraði fyrsta markið

Fyrst öðlaðist íslenskt karlandslið þátttökurétt á heimsmeistaramóti þegar það fór fram Austur-Þýskalandi 1958. Á næsta ári verða þar með liðin 65 ár síðan Gunnlaugur Hjálmarsson skoraði fyrsta mark Íslands á HM í leik við Tékkóslóvakíu í Magdeburg 27. febrúar 1958. Gunnlaugur skoraði alls 44 HM-mörk í 12 leikjum á þremur mótum og fyrsti Íslendingurinn til þess að vera valinn í heimsliðið.

150 leikmenn tekið þátt

Alls er leikirnir orðnir 132 og mörkin 3.303, skoruð af 113 leikmönnum, en 150 íslenskir handknattleiksmenn hafa tekið þátt. Sigurleikirnir eru 55, jafntefli sjö, og töpin 70. Skorað hefur verið 3.221 mark hjá íslenska landsliðnu í leikjunum 132.

Áhorfendur sungu við raust þegar þjóðsöngurinn var leikinn fyrir viðuregnina við Austurríkismenn í gær. Mynd/J.L.Long

Markahæstur og leikjahæstur

Markahæsti leikmaður Íslands á HM er Guðjón Valur Sigurðsson með 294 mörk í 57 leikjum. Hann er þriðji markahæsti leikamaður í sögu HM. Af Íslendingum er Ólafur Stefánsson næstur á eftir Guðjóni Val með 227 mörk í 54 leikjum. Guðjón Valur á jafnframt flesta HM-leiki af íslenskum handknattleiksmönnum, 57 leikir frá 2001 til og með 2019.


Af núverandi landsliðsmönnum er Björgvin Páll Gústavsson leikreyndastur með 40 leiki í lokakeppni HM á 10 ára tímabili.

Guðmundur á flesta leiki – 12 þjálfarar

Guðmundur Þórður Guðmundsson núverandi landsliðsþjálfari hefur stýrt íslenska landsliðinu í 34 leikjum í lokakeppni HM. Næstur á eftir er Þorbjörn Jensson með 15 leiki og Bogdan Kowalczyk og Þorbergur Aðalsteinsson með 14 leiki hvor. Alls hafa 12 landsliðsþjálfarar komið við sögu á 21 móti til þessa.

Lið Hallsteins 1961 gaf tóninn

Hallsteinn Hinriksson var landsliðsþjálfari Íslands á HM 1958 og aftur þremur árum síðar 1961, alls níu leikir. Árið 1961 hafnaði íslenska landsliðið í 6. sæti á HM í Vestur-Þýskalandi. Segja má að árangur Hallsteins og íslensku piltanna árið 1961 hafi gefið tóninn.

Árangur landsliðsins 1961 var ekki bættur fyrr en á HM 1997 þegar íslenska landsliðið náði 5. sæti undir stjórn Þorbjörns Jenssonar. Ísland varð í sjötta sæti á HM 1986 og 2011.

Sonur Hallsteins, Geir, lék með íslenska landsliðnu á HM 1970, 1974 og 1974. Sonarsonurinn, Logi, tók þátt í HM 2005 og 2007.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -