Íslandsvinur og fyrrverandi leikmaður KA, Lars Walther, var leystur frá störfum sem þjálfari pólska úrvalsdeildarliðsins Azotu-Pulawy á dögunum meðan hann lá inni á sjúkrahúsi þar sem hann jafnaði sig af lungnasýkingu af völdum kórónuveirunnar. Walther var nánast síðasti maður sem frétti af uppsögninni.
Þegar að Walther kom til síns heima að loknum 10 dögum á sjúkrahúsi heyrði hann utan af sér að köttur væri í bóli bjarnar. Fjölmiðlamenn höfðu síðar samband og spurðu hann út í þjálfaraskiptin hjá félaginu sem Walter vissi ekkert um að öðru leyti en af afspurn. „Ég virtist vera sá eini sem vissi ekkert um málið,“ sagði Walter í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gær.
„Það eina sem ég fékk frá félaginu á þessu tíma var sms rétt eftir að ég lagðist inn á sjúkrahús þar sem mér var óskað skjóts bata. Þótt bati minn hafi verið skjótur og góður þá dugði það skammt,“ sagði Walther sem ætlar að fara með uppsögnina fyrir dómstóla.
Azotu-Pulawy er í öðru sæti pólsku úrvalsdeildarinnar næst á eftir stórliði Vive Kielce sem ber höfuð og herðar yfir önnur lið deildarinnar. Walther tók við þjálfun liðsins á síðasta sumri. Hann lék með KA frá 1998 til 2000.