Íslendingaliðið Blomberg-Lippe flaug inn í átta liða úrslit þýsku bikarkeppninnar í handknattleik í dag með 12 marka sigri á Solingen, 37:25, í Kingenhallen í Solingen. Íslensku landsliðskonurnar Andrea Jacobsen, Díana Dögg Magnúsdóttir og Elín Rósa Magnúsdóttir létu til sín taka í viðureigninni.
Díana Dögg skoraði þrjú mörk, átti þrjár stoðsendingar, var með þrjú sköpuð færi og stal boltanum einu sinni.
Elín Rósa skoraði tvö mörk, var með þrjú sköpuð færi og tvær stoðsendingar.
Andrea skoraði ekki mark en átti fjórar stoðsendingar, tvö sköpuð færi, eitt varið skot í vörninni og nappaði boltanum einu sinni af mótherjanum.
Blomberg-Lippe liðið gerði út um leikinn í fyrri hálfleik. Að honum loknum var liðið komið með 10 marka forskot, 20:10.