Danska meistaraliðið Aalborg Håndbold sem Aron Pálmarsson leikur með og Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari hjá vann Mors-Thy með fjögurra marka mun, 38:34, í næst síðustu umferð í riðli tvö í átta liða úrslitum dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í dag.
Aalborg er efst í riðlinum með 10 stig eftir fimm leiki en Skjern er í öðru sæti með sjö stig að loknum fjórum leikjum. Skjern á leik inni við Fredericia annað kvöld.
Aalborg Skjern mætast í lokumferðinni eftir viku. Mors-Thy og Fredericia eru úr leik í keppninni um sæti í undanúrslitum.
Aron skoraði tvö mörk í leiknum í dag. Einnig átti hann fjórar stoðsendingar.
Aalborg mætir Veszprém öðru sinni í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í Álaborg á miðvikudaginn. Veszprém vann fyrri viðureignina með sjö marka mun.
Viktor Gísli og félagar í harðri baráttu
Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar í GOG eru í harði baráttu við Bjerringbro/Silkeborg um efsta sæti í riðli eitt í úrslitakeppninni. GOG mætir Ribe-Esbjerg á heimavelli á morgun. Vinni GOG leikinn nær liðið tveggja stiga forskoti á Bjerringbro/Silkeborg í efsta sæti fyrir síðustu leikina eftir viku. Í lokaumferðinni leikur GOG við Skanderborg Aarhus Håndbold.
Að riðlakeppninni lokinni tekur við krossspil á milli liðanna sem hafna í tveimur efstu sætunum í riðlunum. Að krossspilinu loknu leika sigurliðin um danska meistaratitilinn.