- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Íslendingar í báðum sigurliðum upphafsleikjanna – myndskeið

Heiðmar Felixson er nú aðstoðarþjálfari þýska 1. deildarliðsins Hannover-Burgdorf. Mynd/Hannover-Burgdorf
- Auglýsing -

Íslendingar voru í sigurliðum í tveimur fyrstu leikjum þýsku 1. deildarinnar í handknattleik karla sem hófst í kvöld, um viku fyrr en stundum áður. Teitur Örn Einarsson og samherjar í Flensburg, sem margir veðja að verði eitt liðanna í kapphlaupinu um meistaratitilinn, vann HSV Hamburg á heimavelli, 37:32, eftir að hafa verið yfir, 16:14, í hálfleik.

Halda áfram frá síðustu leiktíð

Í hinni viðureigninni vann Hannover-Burgdorf sigur á Erlangen á útivelli í tryggingafélagshöllinni í Nürnberg, Arena Nürnberger Versicherung, 27:25. Heiðmar Felixson er sem fyrr aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf sem kom einna mest liða á óvart á síðustu leiktíð.

Skammt er stórra högga á milli hjá Heiðmari og félögum því þeir eiga leik við Ystads á laugardaginn í fyrri umferð forkeppni Evrópudeildarinnar. Leikurinn verður háður í Svíþjóð en um er að ræða fyrsta leik Hannover-Burgdorf í Evrópukeppni félagsliða.

Marius Steinhausen skoraði átta mörk í átta skotum fyrir Hannover-Burgdorf. Simon Jeppsson skoraði sex mörk fyrir Erlangen og var markahæstur.

Golla og Smits með 19 mörk

Teitur Örn Einarsson skoraði ekki mark fyrir Flensburg í sigrinum á Hamburg í Flens-Arena. Línumaðurinn Johannes Golla skoraði 10 mörk og Kay Smits, sem kom til Flensburg í sumar frá Evrópumeisturum SC Magdeburg, skoraði níu sinnum. Danski hornamaðurinn Casper Mortensen skoraði sjö mörk fyrir Hamborgarliðið.

Einn leikur verður í deildinni annað kvöld, föstudag. Leikmenn SC Magdeburg sækja liðsmenn HSG Wetzlar heim.

Okkar fólk úti.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -