Íslendingaliðin Elverum og Kolstad komust í gær í undanúrslit í norsku bikarkeppninnar í handknattleik karla í gær. Þriðja liðið sem Íslendingar leika með og var í átta liða úrslitum, Drammen, féll úr leik.
Orri Freyr Þorkelsson og leikmenn Elverum lögðu Nærbø með átta marka mun í Nye Loen Nærbø, 38:30. Orri Freyr skoraði eitt mark í leiknum. Elverum var fimm mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 20:15.
Fimm mörk og níu stoðsendingar
Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson skoruðu fimm mörk hvor fyrir Kolstad þegar liðið vann Drammen með 10 marka mun, 31:21, að viðstöddum 2.112 áhorfendum í Kolstad Arena í Þrándheimi. Janus Daði átti einnig níu stoðsendingar og var allt í öllu í sóknarleik Kolstad-liðsins.
Óskar Ólafsson, sem var á dögunum valinn í 35 manna HM-hóp Íslands, skoraði þrjú mörk fyrir Drammen og hinn hálf íslenski Viktor Petersen Norberg skoraði tvisvar sinnum. Óskar átti einnig þrjár stoðsendingar og Viktor tvær, alveg í takti við fjölda markanna sem þeir skoruðu.
Auk Kolstad og Drammen þá komust ØIF Arendal Elite og Kristiansand Topphåndball í undanúrslit bikarkeppninnar í gær.
Úrslitahelgi norsku bikarkeppninnar, þar sem leikið verður til undanúrslita og úrslita í karla- og kvennaflokki, fer fram í Arendal í síðustu helgina í febrúar.