Ómar Ingi Magnússon fór á kostum í dag þegar Magdeburg náði að leggja Bjarka Má Elísson og samherja í Lemgo, 30:28, á heimavelli. Ómar Ingi skoraði níu mörk, þar af sjö úr vítaköstum þar sem hann var með fullkomna nýtingu. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú mörk fyrir Magdeburg og átti fjórar stoðsendingar.
Bjarki Már Elísson skoraði fimm af mörkum Lemgo-liðsins, þar af eitt úr vítakasti. Tim Suton var markahæstur hjá Lemgo með sjö mörk. Leikurinn í Magdeburg var í járnum og það var ekki fyrr en á síðustu mínútunum sem Magdeburg-liðið komst fram úr, annars munaði lengst af ekki nema einu marki, á annan hvorn veginn.
Rhein-Neckar Löwen komst upp að hlið Kiel í efsta sæti deildarinnar með fimm marka sigri á Nordhorn á útivelli, 29:24. Alexander Petersson skoraði ekki mark fyrir Löwen. Ýmir Örn Gíslason var ekki í leikmannhópi Löwen.
Oddur Gretarsson skoraði þrjú mörk, öll úr vítaköstum, þegar Balingen vann kærkominn sigur á Hannover-Burgdorf í Hannover, 29:25. Balingen hefur rétt úr kútnum í síðustu leikjum og er jafnt og þétt að mjaka sér upp úr botnsætunum.
Viggó Kristjánsson var markahæstur hjá Stuttgart þegar liðið fór án þjálfara síns, Jürgen Schweikardt, í heimsókn til Wetzlar, 30:25. Schweikardt hefur smitast öðru sinni af kórónuveirunni, eftir því sem næst verður komist. Þetta var 400. leikur þjálfara Wetzlar Kai Wandschneider í þýsku 1. deildinni en hann hefur víða verið á löngum þjálfaraferli.
Viggó skoraði sjö mörk, þar af fimm úr vítakasti. Elvar Ásgeirsson skoraði eitt mark fyrir Stuttgart auk þess að standa fyrir sínu í vörn liðsins að vanda.
Staðan í þýsku 1. deildinni:
Kiel 18(10), Rhein-Neckar Löwen 18(10), Flensburg 16(9), Füchse Berlin 13(9), Stuttgart 13(10), Göppingen 12(11), Wetzlar 12(11), Melsungen 11(8), Leipzig 11(10), Lemgo 11(11), Erlangen 11(11), SC Magdeburg 10(9), Hannover-Burgdorf 9(10), Bergischer HC 9(10), Balingen-Weilstetten 7(11), Nordhorn 6(11), Minden 5(8), Ludwighafen 5(11), Essen 3(9), Coburg 0(10).