Þýska liðið Gummersbach, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, vann Hannover-Burgdorf, 29:26, á útivelli í fyrsta leik keppnistímabilsins í þýsku 1. deildinni í kvöld. Sigurinn var sannfærandi og var ekki síst að þakka mjög öflugum varnarleik Gummersbach þar sem Elliði Snær Viðarsson og Teitur Örn Einarsson léku stór hlutverk í bakvarðastöðunum.
Komu einnig við sögu í sókninni
Auk þess lék Teitur Örn meirihluta leiksins í vinstra horni en leysti einnig Hollendinginn Kay Smits af í hægri skyttu stöðunni. Selfyssingurinn skoraði fjögur mörk og var einu sinni vikið af leikvelli. Elliði Snær skoraði þrjú mörk og mátti einnig bíta í það súra epli að vera einu sinni vikið af leikvelli. Smits, sem kom til Gummersbach frá Flensburg í sumar var markahæstur með sex mörk. Renars Uscins skoraði átta sinnum fyrir Hannover-Burgdorf.
Gummersbach var með fjögurra marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 15:11. Sigurinn er afar öflugur í upphafi deildarkeppninnar og einnig í ljósi þess að Hannover-Burgdorf er vel skipað lið sem var lengst af síðasta tímabils í toppbaráttu. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgorf fimmta keppnistímabilið í röð.