Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæma viðureign SC Magdeburg og Evrópumeistara Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla á morgun í Lanxess-Arena í Köln.
Þetta verður í þriðja skiptið sem þeir félaga mæta saman til leiks með flautur sínar og spjöld til að dæma einhvern af fjórum leikjum úrslitahelgar Meistaradeildarinnar. Anton Gylfi verður í eldlínunni í fjórða sinn. Hann dæmdi undanúrslitaleik Kielce og Barcelona í Köln 2013 með dómarafélaga sínum til nokkurra ára, Hlyni Leifssyni.
Þremur árum síðar var Anton Gylfi mættur til leiks á ný í Köln og þá með Jónasi. Þeir dæmdu viðureign PSG og Kielce um 3. sætið á sunnudeginum.
Tvö ár liðu og vorið 2018 voru þeir kallaðir til Kölnar til þess að dæma leik Vardar og Montpellier í undanúrslitum.
Undanúrslitaleikirnir á morgun laugardag: Kl. 13.15 - SC Magdeburg - Barcelona Kl. 16 - Kielce - PSG. Sigurliðin í leikjunum á morgun mætast í úrslitaleik á sunnudag klukkan 16. Tapliðin leika um bronsið á sunnudaginn kl. 13.15. Hægt er að fylgjast með leikjunum endurgjaldslaust á EHFtv.com.
Breyting
Áður en fyrirkomulagi í keppninni var breytt og tekin upp sérstök úrslitahelgi með fjórum síðustu leikjunum voru íslenskir dómarar valdir til þess að dæma leiki á lokaspretti Meistaradeildar Evrópu.
Stefán dæmdi víða
Stefán Arnaldsson og Gunnar Viðarsson dæmdu fyrri úrslitaleik Portland San Antonio frá Spáni og Montpellier í Meistaradeildinni vorið 2003. Þeir dæmdu einnig fyrri undanúrslitaleik Kiel og Badel Zagreb vorið 2000.
Stefán dæmdi áður með Rögnvald Erlingssyni um árabil. Þeir dæmdu fyrri undanúrslitaleik Split og Kiel á vordögum 1998. Árið áður, 19. apríl 1997, dæmdu Stefán og Rögnvald síðari úrslitaleik milli Barcelona og Badel Zagreb í Meistaradeildinni að viðstöddum 11 þúsund áhorfendum í Zagreb. Barcelona vann leikinn, 30:23, eftir öruggan sigur á heimavelli, 31:22.